Erlent

Alls 59 látnir og 130 enn saknað í Kaliforníu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Leitað er skipulega í rústum húsa á svæðinu og í bílum sem brunnið hafa á aðliggjandi vegum.
Leitað er skipulega í rústum húsa á svæðinu og í bílum sem brunnið hafa á aðliggjandi vegum. Getty/Justin Sullivan
Nú hefur verið staðfest að 56 eru látnir í Camp-eldunum sem brunnið hafa í Norður-Kalíforníu í bænum Paradise og nágrenni. 130 er enn saknað á svæðinu. Alls eru 59 látnir í eldum sem geisa nú um allt ríkið.

450 manns leita nú skipulega í rústum húsa á svæðinu og í bílum sem brunnið hafa á aðliggjandi vegum. Margir þeirra sem saknað er eru eldri borgarar úr bænum Magalia, sem er ellefu þúsund manna bær í miðju skóglendi í nágrenni Paradise.

Camp-eldurinn er mannskæðasti eldur sem nokkurn tímann hefur geisað í Kalíforníu og mannskæðasti eldur í Bandaríkjunum í heila öld.

Því til viðbótar hafa fleiri eldar brunnið í Kalíforníu síðustu daga, þar á meðal Woolsey-eldurinn í nágrenni Malibu þar sem tveir hafa látist og fjöldi bygginga orðið eldinum að bráð.

Allt í allt eru um níuþúsund slökkviliðsmenn nú að störfum í Kalíforníu til að reyna að hefta eldana og ráða niðurlögum þeirra. Camp-eldurinn logar til að mynda glatt enn og segjast slökkvliðsmenn hafa náð tökum á hluta svæðisins, eða um þrjátíu og fimm prósentum af því svæði sem brennur. Þeir búast ekki við að ná fullum tökum á ástandinu fyrr en í lok mánaðarins.


Tengdar fréttir

Leit að látnum gæti tekið vikur

Það gæti tekið leitarhópa og rannsakendur vikur að finna lík allra þeirra sem hafa látist í skógareldum í Kaliforníu undanfarna daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×