Fjölmargir eldar geisa enn í þessu fjölmennasta ríki Bandaríkjanna og samkvæmt Los Angeles Times hefur útbreiðsla þeirra tveggja stærstu, sem kenndir eru við Camp og Woolsey, ekki verið heft nema um þriðjung.
Tala látinna hélt áfram að hækka í gær og eins og embættismenn benda á mun sú þróun halda áfram enda er hundraða enn saknað. Þegar Fréttablaðið fór í prentun í gær höfðu lík 44 fundist.
Fréttaveitan AP fjallaði ítarlega um störf leitarfólks í gær. Í umfjölluninni kom fram að í bænum Paradise, þar sem Camp-eldarnir geisa enn, sé fjöldi hópa að störfum.
Leitarmenn notast við einfalda hugmyndafræði. Tóm innkeyrsla er góðs viti, einn bíll vekur áhyggjur en fleiri brenndir bílar eru sagðir uggvænlegur fyrirboði.
Camp-eldarnir hafa valdið mestu tjóni. Þeir geisa í Butte-sýslu í norðurhluta ríkisins á um 500 ferkílómetra svæði.
Samkvæmt tölfræði sem Los Angeles Times birti hafa 42 farist í eldunum, 6.522 heimili eyðilagst og 260 byggingar með atvinnustarfsemi. Þá ógna eldarnir 15.500 byggingum til viðbótar.

Woolsey-eldarnir geisa svo í suðurhlutanum á tæplega 400 ferkílómetra svæði. Þar hefur tvennt farist og 435 byggingar eyðilagst. Eldarnir ógna svo 57.000 byggingum til viðbótar.
Útbreiðsla hefur verið heft um 35 prósent. Þótt slökkviliðsfólk hafi verið að störfum nærri upptökum Woolsey-eldanna, að berjast við Hill-eldana, og því komist tiltölulega snemma á vettvang náðu Woolsey-eldarnir að breiða hratt úr sér vegna mikilla þurrka og vinda. Vindhraði var um 20 metrar á sekúndu í gær og slökkvistarf því enn erfitt.
Kory Honea, lögreglustjóri Butte-sýslu, sagði í fyrrinótt að stefnt væri að því að finna lík þeirra sem eru látnir eins fljótt og hægt er. „Af því ég veit hversu erfitt þetta getur verið fyrir aðstandendur,“ hafði AP eftir Honea.
Lisa Jordan, viðmælandi AP frá Washington-ríki, sagðist hafa keyrt um þúsund kílómetra til að leita frænda síns, Nicks Clark, og MS-veikrar konu hans, Anne, í bænum Paradise.
Hún sagði engan hafa getað veitt upplýsingar um hvort þau hefðu náð að yfirgefa svæðið né um hvort húsið þeirra stæði enn. „En ég held í vonina. Alveg þangað til maður fær síðustu fréttirnar verður maður að halda áfram að berjast.“