Áströlsk kona sem sökuð er um að hafa komið saumnálum fyrir í jarðarberjum er sögð hafa framkvæmt voðaverkið af illgirni. Þetta kom fram fyrir dómi í Brisbane í dag.
Konan, My Ut Trinh, er fimmtug og var handtekin í Queensland á sunnudag. Hún starfaði sem yfirmaður hjá jarðarberjabýli norðan af Brisbane og er ákæran á hendur henni í sjö liðum.
Fram kom fyrir dómi í dag að erðaefni úr Trinh hafi fundist í jarðarberjum í Viktoríuríki. Þá er haft eftir dómara að svo virðist sem Trinh hafi verið knúin áfram af „illgirni eða hefndarþorsta“. Í dómskjölum segir jafnframt að hún hafi viljað valda býlinu sem hún vann á fjárhagslegu tjóni.
Það vakti heimsathygli þegar nálar tóku að finnast í jarðarberjum í Ástralíu í september. Tilkynnt var um á annað hundrað slík tilvik og neyddust ástralskir bændur til að henda jarðarberjum í tonnatali. Ekki er þó ljóst hversu mörg tilvikanna eru rakin til Trinh.
Yfirvöld í Ástralíu hækkuðu í kjölfarið hámarksrefsingu fyrir að eiga við matvæli úr tíu ára fangelsi í fimmtán ár.
Illgirni knúði hana til að fela nálarnar í berjunum
Tengdar fréttir

Kona handtekin í Ástralíu í tengslum við jarðarberjamálið
Fimmtug kona hefur verið handtekin í Queensland í Ástralíu í tengslum við mál þar sem saumnálum hafði verið komið fyrir í jarðarberjum. Konan var handtekin í dag eftir flókna og umfangsmikla rannsókn að því er segir í frétt BBC um málið.

Rannsaka saumnálafaraldur í áströlskum jarðarberjum
Yfirvöld í Ástralíu hafa nú fyrirskipað rannsókn á sex tilvikum þar sem saumnálar hafa ítrekað fundist í jarðarberjum sem seld hafa verið í verslunum. Sex tilvik hafa verið tilkynnt á síðustu dögum.