Innlent

Teslan gerð upptæk ásamt fjármununum sem fundust í rassvasa og leynihólfi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tesla Model S árgerð 2014 sem Friðrik Árni keypti fyrir Hafþór á 46 þúsund evrur í Litháen.
Tesla Model S árgerð 2014 sem Friðrik Árni keypti fyrir Hafþór á 46 þúsund evrur í Litháen. Getty/Daniel Acker
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt Hafþór Loga Hlynsson og Friðrik Árna Pedersen fyrir peningaþvætti. Hafþór Logi var dæmdur í tólf mánaða fangelsi en Friðrik Árni var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Hafþóri Loga var gefið að sök að hafa um nokkurt skeið, þar til í maí 2017, aflað sér rúmlega átta milljón króna ávinnings með refsiverðum brotum. Brotin voru ekki nánar tilgreind en vísað var meðal annars í skattskýrslur Hafþórs og sambýliskonu hans til þess að renna stoðum undir að peningarnir væru illa fengnir.

Sjá einnig: Tekjulaus en með milljón undir rúminu og hálfa í rassvasanum

Friðrik var ákærður fyrir peningaþvætti fyrir að hafa tekið við samtals 5,6 milljónum króna frá Hafþóri Loga og skipt þeim, samkvæmt fyrirmælum hans, í 46 þúsund evrur í útibúi Íslandsbanka í apríl 2017. Í framhaldinu afhenti hann Hafþóri Loga peningana.

Við húsleit á dvalarstað Hafþórs Loga, 300 fermetra einbýlishúsi í Kórahverfinu í Kópavogi, fundust rúmlega 2,5 milljónir króna af fyrrnefndum átta milljónum sem ákært var fyrir. Þar af var tæp hálf milljón í rassvasa Hafþórs, tæp 1,4 milljón króna undir rúmdýnu í herbergi hans og 700 þúsund krónur í leynihólfi bak við eldhúsinnréttingu.

Hafþór Logi (til vinstri) ásamt Sindra Þór Stefánssyni (til hægri) og Viktori Inga Sigurðssyni í Amsterdam, en Hafþór setti þessa mynd á samfélagsmiðilinn á meðan lögregla leitaði Sindra sem hafði strokið frá fangelsinu að Sogni. Hafþór Logi er einn hinna ákærðu í Bitcoin-málinu svokallaða.Instagram @haffilogi

Peningarnir í rassvasanum voru fyrir húsaleigunni

Hafþór var sagður hafa notað hluta af milljónunum átta til að kaupa Tesla Model S bíl, árgerð 2014. Var hún keypt í Litháen í apríl 2017 og var greitt fyrir hana í reiðufé, 46 þúsund evrur eða sem svarar til 5,6 milljóna króna.

Bæði Hafþór og Árni neituðu sök en fyrir dómi sagðist Hafþór kannast við að hafa keypt Tesluna í Litháen fyrir þá upphæð sem tilgreind var í ákærunni.

Þá gaf hann einnig skýringar á því hvernig þeir fjármunir sem fundist á heimili hans voru tilkomnir. Sagðist hann eiga peningana sem fundust í dýnunni, þeir hafi upphaflega verið á bankareikning en millifært þá til kunningja síns vegna fasteignakaupa og fengið reiðufé í staðinn.

Peningana sem hann var með í rassvasanum kvað hann hafa verið fyrir húsaleigunni. Peningana sem fundust í eldhúsinnréttingunni sagði hann hins vegar vera frá kunningjanum en hann hefði ekki nánari upplýsingar um leynihólfið.

 

Einu tekjurnar frá Tryggingastofnun

Þá sagðist hann hafa keypt Tesluna til þess að selja hana aftur. Einkahlutafélag hafi keypt bílinn en hann hafi fjármagnað kaupin. Hluti peninganna sem nýttur var til að kaupa Tesluna fékkst með greiðslu frá tryggingafélaginu VÍS vegna tjóns á Audi bíl sem Friðrik keypti fyrir Hafþór í júlí 2016. Það sem vantaði upp á sagðist Hafþór hafa fengið að láni hjá kunningja.

Í dómi Héraðsdóms kemur fram að einu tekjur Hafþórs á árunum 2015 og 2016 hafi verið frá Tryggingastofnun ríkisins. Hann hafi átt engar eignir en innistæður hans og sambýliskonu hans hafi verið 700 þúsund ár árið 2015 og 1,3 milljónir árið 2016.

Í dómi Héraðsdóms segir að miðað við fjárhag ákærða og brotaferil hans, en hann hefur hefur hlotið ellefu dóma frá desember 2003, megi slá því föstu að hann hafi gerst sekur um þau brot sem hann var ákærður fyrir.

Þá segir einnig að Friðriki hafi mátt vera ljóst að peningarnir sem hann tók við frá Hafþóri Loga hafi verið illa fengnir. Voru mennirnir því dæmdir í fangelsi, Hafþór í tólf mánuði, en Friðrik í sex mánuði sem falla niður haldi hann skilorði næstu tvö ár.

Þá voru milljónirnar sem fundist á heimili Hafþórs Loga gerðar upptækar, sem og Teslan, sem keypt var í Litháen.



Dóm héraðsdóms fá sjá hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×