Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur verið boðaður á fund bankaráðs Seðlabankans klukkan tvö í dag. Eyjan greindi fyrst frá.
Í samtali við Vísi segir Þorsteinn að fundurinn sé að frumkvæði bankaráðsins og að uppgefið tilefni sé ósk Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um skýringar á Samherjamálinu svokallaða. Þorsteinn mun mæta á fundinn ásamt nokkrum öðrum starfsmönnum Samherja sem og lögmanni fyrirtækisins.
Fyrr í mánuðinum ógilti Hæstiréttur ákvörðun Seðlabankans um að sekta Samherja um fimmtán milljónir króna vegna meintra brota á reglum um gjaldeyrismál.
Forsætisráðherra óskaði í kjölfarið eftir eftir greinargerð ráðsins um mál Samherja frá þeim tíma þegar rannsókn bankans á meintum brotum á reglum um gjaldeyrismál hófst.
Þorsteinn Már hefur sagt að Már Guðmundsson seðlabankastjóri þurfi að axla ábyrgð á þætti sínum í málinu. Már segir hins vegar að Seðlabankanum hafi verið skylt að kæra Samherja vegna málsins.
Þorsteinn Már boðaður á fund bankaráðs Seðlabankans

Tengdar fréttir

Samherjamenn ósáttir við yfirlýsingar um formsatriði og undirbúa skaðabótamál
Sjórnarformaður Samherja segir að félagið undirbúi nú skaðbótamál á hendur Seðlabanka Íslands. Hann segir erfitt að sitja undir yfirlýsingum um að mál Seðlabankans á hendur Samherja hafi fallið á tæknilegum atriðum þegar saksóknari hafi hreinsað félagið af sök.

Krefst skýringa frá Seðlabankanum vegna Samherjamálsins
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur sent bankaráði Seðlabankans bréf þar sem hún óskar eftir greinargerð ráðsins um mál Samherja frá þeim tíma þegar rannsókn bankans á meintum brotum á reglum um gjaldeyrismál hófst.

Segir það hafa verið ótvíræða skyldu að kæra Samherja
Seðlabankastjóri segir að bankanum hafi verið skylt að kæra Samherja vegna brota á reglum um gjaldeyrismál. Hann hafi kannað að ljúka málinu með sáttaferli, sem lögmenn bankans hafi hins vegar útilokað.