Erlent

Juncker segir Brexit vera harmleik

Atli Ísleifsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í Brussel.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í Brussel. Getty/Sean Gallup
Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins mættu til fundar í Brussel í morgun þar sem til stendur að ganga frá og skrifa undir samninginn um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

„Þetta er sorglegur dagur. Að sjá ríki eins og Stóra-Bretland… yfirgefa ESB er ekki gleðistund eða fagnaðarmál. Þetta er sorgleg stund og þetta er harmleikur,“ sagði Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, þegar hann mætti til fundarins.

Dalia Grybauskaite, forseti Litháen, sagðist ekki trúa því að skilnaður geti falið í sér nokkuð gott. „Það er ekkert gott í þessu, það á við báða aðila. Við erum ekki sérstaklega glöð,“ sagði Grybauskaite.

Pólitísk yfirlýsing um framtíðarsamskipti

Fundurinn hófst klukkan 8:30 að íslenskum tíma, en leiðtogarnir ætla sömuleiðis að samþykkja sameiginlega, pólitíska yfirlýsingu um framtíðarsamskipti Bretlands og ESB.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, birti í gær bréf til bresku þjóðarinnar þar sem hún biðlaði til hennar að fylkja sér á bakvið Brexit-samninginn. Sagði hún samninginn lofa „bjartri framtíð“ og að útgangan á næsta ári muni marka upphaf endurnýjunar og sátta fyrir Bretland.



Sömdu um Gíbraltar



Samkomulag náðist í gær um málefni Gíbraltar, en Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, hafði hótað því að sniðganga leiðtogafundinn í dag myndi það ekki takast.

Framundan eru fleiri erfiðir dagar fyrir May sem þarf nú að sannfæra meirihluta bresks þingheims um ágæti Brexit-samningsins.

Bretland mun formlega ganga úr sambandinu þann 29. mars næstkomandi. Samningurinn er hins vegar þannig að nokkur tími muni líða áður en einstaklingar og fyrirtæki munu taka eftir stærri breytingum.

Sérstakur aðlögunartími tekur við við útgöngu og stendur fram til ársloka 2020, með möguleika á tveggja ára framlengingu. Á þeim tíma eiga bresk stjórnvöld og ESB að semja frekar um ýmsa þætti sem snúa að breyttum veruleika.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×