Á fundinum er farið yfir þær breytingar sem á að gera á verksmiðjunni sem missti starfsleyfi sitt 1. september á síðasta ári vegna vandamála vegna loftgæða, ófullnægjandi meðhöndlunar hráefna, frágangs á lóð og fleiri atriða.
Örn Steinar sagði að breytingar yrðu gerðar á ofni verksmiðjunnar. Meðal annars ætti að skipta um fóðringu hans en grunur leikur á að hún hafi verið gölluð. Hann segir að áhersla verði lögð á loftgæði vegna reksturs verksmiðjunnar.
Norskur ráðgjafi ósáttur við verksmiðjuna
Tom Arild Olsen, deildarstjóri hjá norska ráðgjafafyrirtækinu Multiconsult, segir að allt of oft hefði ofn verksmiðjunnar verið stöðvaður og ræstur á ný með tilheyrandi mengun. „Við vorum ekki hrifin af því sem við sáum í verksmiðjunni,“ sagði Tom í framsögu sinni á íbúafundinum í Reykjanesbæ í kvöld.Tom kynnti niðurstöður lyktarmælinga sem leiða í ljós að á þeim tímabilum sem rekstur verksmiðjunnar var óstöðugur bárust fleiri tilkynningar um lykt.
Í máli Tom kom fram að nauðsynlegt væri að tryggja stöðugan og eðlilegan rekstur kísilverksmiðjunnar í Helguvík til að minnka mengun frá henni. Fækka þyrfti ofnstoppum verulega, stytta tíma sem það tekur fyrir ofninn að ná fullu álagi eftir skipulögð ofnstopp, ásamt því sem gera þyrfti breytingar á ofninum og ýmsum búnaði.