Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er ein þeirra sem yfirgaf þingsal þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, fór í ræðustól á dögunum.
„Auðvitað er ástandið alvarlegt, fólki líður illa. Gætuð þið setið saman í nefnd? Við sitjum uppi með það að við verðum að vinna saman, við erum á þessum vinnustað, við getum ekki stjórnað því hvað aðrir gera,“ sagði Þórunn.

Óttast að fleiri mál komi upp
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir það sýna alvarleika Klaustursmálsins að siðanefnd þingsins hafi verið virkjuð vegna þess í fyrsta sinn.Hann óttast að fleiri mál eigi eftir að berast til hennar og vísar til máls Ágústar Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem hefur óskað eftir leyfi frá störfum vegna særandi framkomu gegn konu.
„Nú veit maður ekki mikið um hvernig þau atvik voru því ólíkt hinu málinu eru ekki til hljóðupptökur sem hægt er að vísa til eða skoða. En ég held að það sé óhjákvæmilegt að það sé skoðað og metið hvort það eigi heima í þessum farvegi,“ sagði Birgir.

Hlutverk nefndarinnar að taka við erindum
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir það vera skýrt að hlutverk forsætisnefndar sé að taka við erindum sem þangað berast. Nefndin eigi ekki að hafa skoðun á því hvaða mál fari fyrir siðanefnd þingsins.Hann segist ekki vita til þess að tilkynnt hafi verið um mál Ágústar Ólafs til nefndarinnar. Einu gögnin sem hann hafi um málið sé bréf frá Ágústi Ólafi þar sem hann óskar eftir launalausu leyfi frá störfum.