Þetta var fimmti sigur Davidson í röð en liðið er alls búið að vinna átta af níu leikjum sínum á tímabilinu og er efst í Atlantic 10-deildinni í háskólakörfunni vestanhafs.
Jón Axel spilaði frábærlega enn og aftur en hann daðraði við þrennu með 24 stigum, tíu fráköstum og sex stoðsendingum. Hann hitti úr átta af fjórtán skotum sínum, þar af fjórum af sjö þriggja stiga skotunum sem að hann tók úr leiknum sem gerir 57 prósent nýtingu fyrir utan teig.
Efstur í öllu
Jón Axel var ekkert bara að spila frábærlega í nótt. Hann er búinn að vera magnaður í fyrstu leikjum tímabilsins og í heildina bestur í sínu liði.Hann er stiga, frákasta- og stoðsendingahæstur í Davidson-liðinu með 19,4 stig að meðaltali í leik, 6,3 fráköst og 4,8 stoðsendingar. Ekki amalegt.
Þá er Jón Axel næstefstur í stolnum boltum, spilar næst flestar mínúturnar í liðinu og er með 43,8 prósent þriggja stiga nýtingu sem er sömuleiðis sú næst besta í liðinu.
Grindvíkingurinn er á þriðja ári hjá Davidson en í fyrra var hann að skora 13,2 stig að meðaltali í leik, taka sex fráköst og gefa fimm stoðsendingar þannig að hann er heldur betur að bæta stigaskorið sitt.
Eins og flestir vita hefur Jón Axel ekki langt að sækja körfuboltahæfileikana en faðir hans, Guðmundur Bragason, leiddi Grindavík til Íslandsmeistaratitilsins 1996 og þá spilaði móðir hans Stefanía Sigríður Jónsdóttir sömuleiðis fyrir meistaraflokk Grindavíkur.