Innlent

Skíðasvæðin á Norðurlandi að opna og snjóframleiðsluvélarnar keyrðar á fullu

Sveinn Arnarsson skrifar
Hjólin eru farin snúast aftur í Hlíðarfjalli.
Hjólin eru farin snúast aftur í Hlíðarfjalli. Fréttablaðið/Auðunn
Langvinnu sumarfríi skíðaiðkanda er lokið eftir gríðarlega snjókomu síðustu daga á Norðurlandi. Skíðasvæðið í Böggvis­staðafjalli við Dalvík var opnað í dag og stefnt er að opnun í Hlíðarfjalli á laugardagsmorgun.

Snjóframleiðsluvélarnar eru keyrðar á fullum afköstum til að gera aðstæður sem allra bestar á Akureyri fyrir komandi helgi en byssurnar framleiða um 630 þúsund rúmmetra af snjó á hverri klukkustund. Kjöraðstæður fyrir vélarnar eru um 10 stiga frost og því ættu aðstæðurnar að verða mjög góðar um næstu helgi

Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls, segir mikil­vægt að framleiða snjó til að bæta í þann náttúrulega snjó sem fyrir er á svæðinu. „Nú er bara verið að standsetja allt og gera allt klárt. Það er líka kominn kippur í árskortasöluna hjá okkur. Margir bíða eftir opnuninni,“ segir Guðmundur Karl.

Ekki var útlitið ákjósanlegt fyrir skíðaiðkendur fyrir viku því þá var afar lítið af snjó á Norðurlandi eftir góða tíð í nóvember. Nú hins vegar kætast áhugamenn um þessar vetraríþróttir allsnarlega.

„Byssurnar hjá okkur eru að afkasta nú um 633 þúsund rúmmetrum á klukkutíma. Þær hafa margsannað gildi sitt og lengja tímabilið okkar töluvert,“ segir Guðmundur Karl.




Tengdar fréttir

Opna í Hlíðarfjalli um helgina

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar verður opnað í fyrsta sinn í vetur næstkomandi laugardag, 8. desember, klukkan 10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×