Fundi formanna þingflokkanna með forseta Alþingis lauk á skrifstofum Alþingis á tólfta tímanum. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði að nefndin væri einhuga um meðferðina sem málið ætti að fara.
„Það komu fram ýmsar breytingar um uppsetningu þingsins. Ég veit ekki hversu mikið ég get tjáð mig um þetta. Forsetinn mun vera með yfirlýsingu í byrjun þingfundar þar sem hann fer yfir hverjar afleiðingarnar af þessu máli verða og eru, og hvaða hreyfingar hafa verið fram að þessu. Ég veit ekki hvort ég megi tjá mig um þetta þannig að ég ætla bara að passa mig,“ sagði Þórhildur Sunna.
Anna Kolbrún Árnadóttir er starfandi þingflokksformaður Miðflokksins eftir að Gunnar Bragi Sveinsson fór í launalaust leyfi í ótilgreindan tíma.
Þórhildur Sunna var spurð út í viðbrögð Önnu Kolbrúnar á fundinum.
„Þau voru ekki neitt sérlega stórmannleg,“ sagði Þórhildur Sunna og vísaði í að Anna Kolbrún hefði verið lítil í sér. Anna Kolbrún hefði tjáð sig um málið en ekki mikið að sögn Þórhildar Sunnu.
Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði að á fundinum hefði verið rætt hvernig þingmenn ætluðu að ganga inn í daginn.
„Við tökum á þessu máli á næstu dögum í þeim farvegum sem við höfum,“ sagði Oddný.
Hanna Katrín Friðriksdóttir, þingflokksformaður Viðreisnar, sagði forseta Alþingis vera að fara yfir málið á fundi forsætisnefndar. Svo yrði hann með yfirlýsingu í upphafi þingfundar.
„Vonandi náum við að halda formlegum þingstörfum áfram eftir það. Það eru mörg stór mál sem bíða úrlausnar. Þrátt fyrir allt þurfum við að sinna okkar starfi.“
Uppfært:Þórhildur Sunna hafði samband við fréttastofu og vildi árétta að ummæli hennar um að viðbrögð Önnu Kolbrúnar hefðu ekki verið stórmannleg, hefðu verið meint á annan hátt, það er að Anna Kolbrún hefði verið lítil í sér á fundi þingflokksformanna. Frétt og fyrirsögn hafa verið uppfærð í samræmi við það.
Stjarnan
KR