Tilkynnt var um líkamsárás á bar í Mosfellsbæ á tíunda tímanum í gær. Þar hafði maður verið kýldur og sagður hafa misst meðvitund. Hann hlaut einnig skurð við eyra og var fluttur til aðhlynningar á slysadeild. Árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Skömmu fyrir miðnætti handtók lögregla mann í miðborginni vegna gruns um innbrot í bifreiðar. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Þá stöðvaði lögregla nokkurn fjölda ökumanna á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna og/eða án ökuréttinda.
Innlent