Skoðun

Eineltishugtakið þrengt

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Ég hef átt fund með félags- og jafnréttisráðherra til að ræða við hann um reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Tilefnið var annars vegar beiðni um breytingar vegna þrengingar sem gerð var á skilgreiningu eineltis í eineltisreglugerð árið 2015 og hins vegar að rannsakendur væru óháðir.

Breytingin sem átti sér stað 2015 fól í sér að það sem var „ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi“ breyttist í aðeins „síendurtekin ámælisverð hegðun“. Túlkunin á þessari þröngu skilgreiningu hefur gengið svo langt hjá mörgum þeim sem rannsaka eineltiskvartanir að þeir hafa fullyrt að háttsemin þurfi að vera viðhöfð vikulega yfir það tímabil sem kvörtunin nær til ef hún eigi að flokkast sem síendurtekin og þ.a.l. undir einelti.

Þrenging skilgreiningarinnar hefur haft fælingarmátt. Fólk sem telur sig þolendur segir að það þýði ekki að kvarta þar sem skilgreiningin sé svo þröng. Með vísan til þessa má telja að óheillaskref hafi verið stigið með breytingunni á skilgreiningu eineltis með setningu reglugerðar nr. 1009/2015. Vandséð er hvað vakti fyrir framkvæmdarvaldinu með þrengingu skilgreiningarinnar. Það er óskandi að ráðherra geri þær breytingar á reglugerðinni að skilgreiningin á einelti verði færð í fyrra form og þannig miðað við að einelti sé ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, svo sem áður var mælt fyrir um í reglugerð.

Er rannsakandinn óháður?

Einnig ræddum við um að margir sem komið hafa að þessum málum hafa orðið varir við að utanaðkomandi sérfræðingar sem rannsaka eineltisásakanir á vinnustað, komast nánast alltaf að sömu niðurstöðu og vinnuveitandinn virðist hafa á eineltismálinu, þ.e. sami aðilinn og kallar sérfræðinginn til og greiðir fyrir rannsóknina. Rannsakandinn er eins og gefur að skilja háður vinnuveitandanum með þóknun sína. Oft er atvikum einnig háttað á þann veg að vinnuveitandinn er tengdur málinu eða kann að hafa sterkar skoðanir á því hvort einelti hefur átt sér stað eða ekki. Á mannamáli, eins og margir þolendur hafa sagt, þá er eins og niðurstaðan sé keypt.

Mikilvægt er að tryggja að rannsakandi sé óháður með sama hætti og gert er þegar dómstóll kallar til dómkvaddan matsmann. Tilkynnandi verður að fá tækifæri til að hafa hönd í bagga með hverjir rannsaka mál hans. Hann þarf að geta treyst því að sá sem fenginn er til að rannsaka málið sé sannarlega óháður.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×