Sport

„Jólasveinninn“ var óvænt sendur heim í jólafrí á HM í pílu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Wright.
Peter Wright. Skjámynd/S2 Sport2
Óvæntustu úrslitin á HM í pílu til þessa urðu í gærkvöldi þegar Peter Wright var sleginn út en hann er þriðji á heimslistanum í pílu.

Peter Wright mætir alltaf mjög litríkur til leiks en hanakambinn hans fer ekki framhjá neinum. Að þessu sinni var hann líka í keppnistreyju sem var eins og jólasveinabúningur.

„Jólaveinninn“ var óvænt sendur heim því hann tapaði mjög óvænt 3-1 fyrir Spánverjanum Toni Alcinas.





Slæm byrjun fór alveg með Peter Wright en Toni Alcinas vann fyrstu tvö settin. Wright náði að minnka muninn í 2-1 en sá spænski kláraði dæmið í fjórða sett og er kominn áfram í þriðju umferðina.

Alcinas fagnaði sigrinum vel í Alexandra höllinni í London en það var hægt að fylgjast með þessum leik sem og öllum öðrum í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Þetta er annað árið í röð sem Peter Wright dettur út strax í annarri umferð en hann komst í undanúrslitin 2017 og alla leið í úrslitaleikinn áreið 2014.

Hér fyrir neðan má sjá myndband frá keppni þeirra Toni Alcinas og Peter Wright en eins myndband af því þegar hinn litríki Peter Wright var kynntur til leiks.







Auk Toni Alcinas er komnir áfram í þriðju umferðina þeir Rob Cross og Dave Chisnall frá Englandi, Gary Anderson frá Skotlandi, Jamie Lewis frá Wales, Michael van Gerwen frá Hollandi og Max Hopp frá Þýskalandi.

Darius Labanauskas varð fyrsti Litháinn sem kemst í aðra umferð á HM í pílu og hann spilar í dag við fyrrum fjórfaldan heimsmeistara Raymond van Barneveld.

Rússneska pílukonan Anastasia Dobromyslova keppir einnig í kvöld við Ryan Joyce frá Englandi.

Útsending Stöðvar 2 Sport 2 frá HM í pílu hefst klukkan 19.00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×