Þingmenn Miðflokksins sem voru hljóðritaðir á barnum Klaustur í síðasta mánuði hafa ráðið sér lögmann sem krafðist þess að Persónuvernd tæki til rannsóknar hver hefði tekið þá upp.
Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins þar sem rætt er við forstjóra Persónuverndar, Helgu Þórisdóttur.
Þar segir jafnframt að rúmum sólarhring eftir að erindið barst Persónuvernd hafi Bára Halldórsdóttir stigið fram í viðtali við Stundina þar sem hún játaði að hafa tekið upp samtal þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins.
Helga segir Persónuvernd hafa svarað lögmanni þingmanna Miðflokksins að nú liggi fyrir hver tók samræðurnar upp og var óskað eftir svari frá lögmanninum hvort enn væri farið fram á umfjöllun Persónuverndar um málið og hvort sé farið fram á að hún beiti valdheimildum sínum og þá hverjum.
Í frétt Ríkisútvarpsins segir að fjögur erindi hafi borist Persónuvernd frá almenningi þar sem spurt er hvort stofnunin ætli að beita sér í málinu eða gerðar almennar athugasemdir um umræðuna á Klausturbar. Haft er eftir Helgu Þórisdóttur að ekki sé komið á hreint hvort Persónuvernd muni taka upptökuna formlega fyrir en hún verði rædd á fundir stjórnar Persónuverndar í lok næstu viku.
Innlent