Sjómannadagsráð og Hrafnista vilja að Hafnarfjarðarbær komi að rekstri sundlaugar við hjúkrunarheimilið í Hraunvangi.
„Hugmynd okkar er sú hvort bærinn hafi áhuga á samstarfi um reksturinn því sundlaugin er ekki að nýtast íbúum hjúkrunarheimilisins að neinu ráði,“ segir Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu.
Í árslok 2016 hafi velferðarráðuneytið gefið út kröfulýsingu um það sem eigi að vera á hjúkrunarheimilum og þar sé ekki gert ráð fyrir sundlaugum. Því sé ekkert fjármagn ætlað til þeirra sérstaklega.
„Á síðustu árum þurfa íbúar á hjúkrunarheimilum alltaf meiri og meiri þjónustu því þeir eru alltaf veikari og veikari þegar þeir koma inn. Þarf af leiðandi hefur fækkað hratt íbúum sem geta nýtt sér sundlaugina,“ útskýrir Pétur.
Laugin á Hrafnistu í Hraunvangi er sextán metrar að lengd og var tekin í notkun á níunda áratug síðustu aldar að því er kemur fram í bréfi Hrafnistu til bæjarins. Við hana eru einnig heitir pottar. Reksturinn er sagður kosta 10 milljónir króna á ári.
Pétur sér fyrir sér að laugin geti nýst fyrir aldraða sem búa í nágrenni Hrafnistu, sem reyndar nota laugina nú þegar, eins og gestir í dagdvöl á hjúkrunarheimilinu. Einnig fyrir sérhópa.
„Þessi sundlaug er heitari en aðrar laugar og hentar til dæmis fyrir vatnsleikfimi eldri borgara. Við vorum að reka sundlaug við hjúkrunarheimilið í Boðaþingi fyrir Kópavogsbæ sem þeir tóku yfir um síðustu áramót. Þar er skólasund og ýmislegt fleira,“ segir Pétur.
Í erindinu til Hafnarfjarðarbæjar er óskað eftir viðræðum við bæjaryfirvöld um hugsanlega aðkomu bæjarins að rekstrinum „svo sundlaugin geti áfram þjónað sínum tilgangi sem er að bæta lífsgæði aldraðra.“ Pétur segir samstarfið geta orðið spennandi. Hrafnista sé opin fyrir ýmsum möguleikum í notkun laugarinnar.
„Það er erfitt fyrir hjúkrunarheimilið að halda úti þessum rekstri þegar sá fjöldi íbúa á hjúkrunarheimilinu sem notar laugina er teljandi á fingrum annarrar handar,“ undirstrikar forstjórinn. Eitthvað þurfi því að koma til. „Ef svo fer sem horfir að ríkið haldi áfram að skera niður framlög til hjúkrunarheimila þá munum við hætta rekstri laugarinnar á einhverjum tímapunkti.“
Innlent