Stjórnvöld í Japan ætla að segja sig úr Alþjóða hvalveiðiráðinu (IWC) og hefja hvalveiðar í atvinnuskyni.
Yoshihide Suga aðal talsmaður japönsku ríkisstjórnarinnar sagði að hvalveiðarnar yrðu takmarkaðar við japönsku lögsöguna. Japanir hefja veiðar í atvinnuskyni í júlí á næsta ári.
Talsmaðurinn sagði þá að ákvörðunin hefði verið tekin þegar þeim hafi orðið það ljóst að innan Alþjóða hvalveiðiráðsins væri ekki rými fyrir mismunandi sjónarmið. Ráðið hafnaði fyrr á árinu tillögu japanskra stjórnvalda að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni.
Félagar í umhverfissamtökum Grænfriðunga hafa fordæmt ákvörðunina og segja hana vera á skjön við ráðandi sjónarmið alþjóðasamfélagsins.
Japanir hættu hvalveiðum í atvinnuskyni á níunda áratugnum í kjölfar ákvörðunar ráðsins að tímabundið banna allar slíkar viðar. Japanir hafa þó nýtt sér gloppur í regluverkinu og stundað svokallaðar „vísindaveiðar“.
Alþjóða hvalveiðiráðið var sett á laggirnar árið 1946 og var ætlað að vinna í þágu hagsmuna hvalveiðiþjóða en í kjölfar hnignunar hvalastofna urðu verndunar-og friðunarsjónarmið ofan á innan ráðsins.
