UFC 232 fer fram á laugardaginn 29. desember en það átti upphaflega að fara fram í Las Vegas en hefur verið fært til Los Angeles vegna óvenjulegs lyfjaprófs Jon Jones.
Jon Jones mætir Svíanum Alexander Gustafsson í aðalbardaga kvöldsins en Jones er þekktur vandræðapési í heimi UFC.
Jones er af mörgum talinn einhver allra besti MMA baradagamaður heims, en hann hefur átt í miklum erfiðleikum með að halda sér réttum meginn við línu laga og reglna.
Þrívegis hefur heimsmeistaratitill hans í léttþungavigt verið tekinn af honum, fyrst fyrir að lenda í árekstri og keyra svo í burtu, og svo í seinni tvö skiptin fyrir að falla á lyfjaprófi.
Ástæða þess að bardagi Jones við Gustafsson hefur verið færður frá Las Vegas yfir til Los Angeles er vegna þess að í lyfjaprófi sem Jones gekkst undir fyrr í þessum mánuði, fannst efni sem þekkt er sem turinabol en það er sama efni og fannst í blóði hans er hann féll á lyfjaprófi í fyrra. Þá var hann dæmdur í 15 mánaðar keppnisbann.
Íþróttasamband Nevada fylkis í Bandaríkjunum hefur ekki nægan tíma til þess að rannsaka þetta mál, og vildi því ekki veita Jones keppnisleyfi. UFC ákvað því að stökkva yfir í næsta fylki við hliðina á, Kaliforníufylki, og var íþróttasamband fylkisins tilbúið til þess að veita Jones keppnisleyfi fyrir bardagakvöldið.
Þrátt fyrir að efnið hafi fundist í blóði Jones, gæti verið að þetta sé enn agnarsmáar leyfar frá lyfjaprófinu sem Jones féll í, í júlí í fyrra.
Fjöldi fólks hefur þegar keypt sér miða á bardagakvöldið í Las Vegas, en það þarf nú að fá endurgreitt, og kaupa sér nýja miða í Los Angeles. Hvort allir nái svo að kaupa miða er auðvitað annað mál. Dana White, forseti UFC býst við að UFC tapi um 5 milljónum dollurum á miðasölunni, aðeins fyrir það að færa bardagakvöldið.
Sport