Að rannsókninni standa vísindamenn við Háskóla Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Kaupmannahafnarháskóla. Kannað var erfðaefni á þriðja hundrað rostungsbeina sem fundist hafa á Íslandi og þau aldursgreind.
Fyrstu niðurstöður liggja nú fyrir og þær marka þáttaskil í sögu dýralíffræði Íslands. Erfðaefni íslensku rostungsbeinanna reynist vera af sérstakri gerð sem ekki finnst annars staðar.
„Það bendir allt til þess, út frá erfðaupplýsingunum, - þetta eru ekki bara einstaklingar sem hafa komið hingað og dáið hérna, - heldur deila þeir ákveðnum erfðabreytileika, sem finnst ekki annars staðar. Það bendir til þess að þetta sé íslenskur stofn,“ segir Snæbjörn Pálsson, prófessor í stofnlíffræði við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

„Frá Reykjanesi, eða Rosmhvalanesi eins og það hét nú einu sinni, og norður fyrir Vestfirði í Húnaflóann,“ segir Hilmar J. Malmquist, líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.
Örnefni vestanlands eins og Urthvalafjörður á Snæfellsnesi og Hvallátur á Breiðafirði og Hvallátur við Látrabjarg vísa einnig til rostunga.
„Og þetta fellur reyndar saman við útbreiðslu á helstu fæðu rostunga, að minnsta kosti í dag, og það er skelfiskur, kúfiskur og önnur skeldýr. Og það er langmest af þessu akkúrat á þessum landsvæðum,“ segir Hilmar.

„Aldursgreiningarnar benda til að þær séu frá um 800 - 830, til svona um 6000 fyrir Krist,“ segir Snæbjörn.
Þetta rímar við kenningar Bergsveins Birgissonar rithöfundar, sem birtust í bókinni Svarti víkingurinn, um að landnámsmenn eins og Geirmundur heljarskinn hafi gengið hart fram í rostungsveiðum.

„Það finnast engin merki, hann virðist deyja út eða hverfa allavega, og það fellur saman við þennan tíma sem landnámið er í gangi. Og það kann að vera, eins og er vitað annarsstaðar frá, að menn hafi ofveitt, gengið of skarpt í að nýta þessa auðlind, og veitt hana niður,“ segir Hilmar.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2: