Formúla 1

Þýska kappaksturkonan ræðir „kraftaverkið“ þegar hún lifði af árekstur á 275 km hraða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sophia Florsch.
Sophia Florsch. Mynd/Instagram/sophiafloersch
Þýski táningurinn Sophia Florsch lenti í rosalegum árekstri í formúlu þrjú keppni í síðasta mánuði en lifði af og er nú öll að koma til. Hún er með jákvæðnina að vopni en viðurkennir að hafa fengið sjokk við að sjá myndbandið af árekstrinum sínum.

Það sáu örugglega langflestir myndbandð ótrúlega þegar Sophia Florsch missti stjórn á bílnum sínum, flaug út úr brautinni og lenti á vegg á fullri ferð. Það skildu fáir hvernig hún lifði þetta af.

Sophia Florsch hryggbrotnaði í árekstrinum og fór í ellefu tíma aðgerð en læknum tókst að koma í veg fyrir lömun sem voru frábærar fréttir fyrir alla.





Sophia Florsch er aðeins átján ára en hafði mikinn metnað til að standa sig í karlaheimi formúlanna. Formúla eitt var og er ennþá markmiðið. Hún stefnir á að vera heimsmeistari í formúlu eitt.

„Það er vissulega mjög stórt markmið en ég nálgast það á hverju ári,“ sagði Sophia Florsch í viðtali við BBC.

„Mér líður vel. Þetta gerðist fyrir fjórum vikum síðan og ég farin að geta gert næstum því allt. Sársaukinn minnkar líka með hverjum degi,“ sagði Sophia.

„Síðustu tvær vikur hafa verið allt í lagi. Ég byrjaði í endurhæfingu fyrir tveimur vikum til að reyna að koma fyrir að ég missi út vöðva og reyna að koma skrokknum af stað á ný,“ sagði Sophia.

„Nú snýst þetta allt um þetta venjulega. Að byggja upp styrk á ný í fótum og höndum. Ég get gert allt fyrir utan það að nota bakið og hálsinn. Síðustu vikur hafa því verið allt í lagi,“ sagði hin jákvæða Sophia.

„Þetta er líklega kraftaverk og það er líka ástæðan fyrir að mér líður eðlilega og ég er ánægð,“ sagði Sophia Florsch sem hélt upp á átján ára afmælið sitt tveimur vikum eftir slysið.

„Þetta gerðist allt svo hratt, enda á 275 km hraða, en ég get gert næstum því allt saman á ný og fyrir mig snýst þetta bara um að vera ánægð og halda áfram á jákvæðu nótunum,“ sagði Sophia.

„Ég man eftir öllu í árekstrinum,“ viðurkenndi Sophia Florsch. Henni finnst slysið ekki hafa verið hræðilegt í minningunni því þetta gerðist svo hratt. „Meira að segja þegar ég var á spítalanum þá fannst mér þessi árekstur ekki vera svo hræðilegur en þegar ég sá myndbandið þá hugsaði ég: Þetta lítur frekar illa út,“ sagði Sophia.

„Ég horfði á slysið í fyrsta sinn á föstudeginum á eftir og fékk auðvitað sjokk því þetta leit alls ekki út. Þetta var eiginlega bara hræðilegt. Ég bjóst ekki við að þetta liti svona hræðilega út því ég upplifði það ekki þannig í bílnum,“ sagði Sophia.

Það má lesa allt viðtalið við hana hér.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×