Erlent

Fékk himinháan reikning vegna tilhæfulausrar ristilspeglunar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Á vef BBC segir að læknar í Syracuse hafi neitað að framkvæma skoðunina nema lögreglan fengi til þess heimild.
Á vef BBC segir að læknar í Syracuse hafi neitað að framkvæma skoðunina nema lögreglan fengi til þess heimild. Getty/Tony Shi Photography
Bandarískum manni sem var ranglega sakaður um að fela fíkniefni í endaþarmi sínum fékk reikning upp á 4600 dollara, eða rúmlega 550 þúsund íslenskar krónur, vegna tilhæfulausrar ristilspeglunar sem lögregla lét hann gangast undir.

Torrence Jackson sagðist hafa neitað að gefa leyfi fyrir skoðuninni og hlaut innvortis áverka vegna hennar.

Á vef BBC segir að læknar í Syracuse hafi neitað að framkvæma skoðunina nema lögreglan fengi til þess heimild. Síðar fékk Jackson reikning upp á 4.595 dollara.

Hann var stöðvaður af lögreglu fyrir að gefa ekki stefnuljós og í bíl hans fundust maríjúana og leifar af kókaíni. Jackson var handtekinn í október í fyrra og sagði einn lögreglumannanna að líkamsstaða Jackson hafi bent til þess að hann væri að fela fíkniefni í endaþarmi.

Einn lögreglumaður slasaðist í átökum við Jackson þegar hann var handtekinn og segir lögregla að hann hafi grínast með að hann væri með fíkniefni.

Hann var síðar fluttur á sjúkrahús þar sem tekin var af honum röntgen mynd en enginn aðskotahlutur fannst við þá skoðun. Síðar fékk lögregla heimild frá dómara til að framkvæma ristilspeglun með 20 sentímetra slöngu. Læknar neituðu að framkvæma aðgerðina þar til lögfræðingur spítalans gekk úr skugga um að Jackson hefði ekki andmælarétt.

Jackson var deyfður fyrir aðgerðina en engin efni fundust innvortis. Jackson segir að honum hafi þá verið sleppt og hann hafi ekki vitað hvað læknar höfðu gert við sig fyrr en hann fann blóð í nærbuxum sínum.

Hann hefur neitað að borga reikninginn en sjúkrahúsið ber fyrir sig að þeim beri að framkvæma aðgerðir sem lögregla fái heimild fyrir hjá dómara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×