Byggja á eitt þúsund fermetra meðferðarheimili í Garðabæ við Vífilsstaðaháls fyrir börn sem glíma við hegðunar- og vímuefnavanda. Þar á einnig að vista unglinga sem úrskurðaðir eru í gæsluvarðhald. Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna má ekki vista börn í fangelsi með fullorðnum.
Samkvæmt viljayfirlýsingu Garðabæjar, velferðarráðuneytisins og Barnaverndarstofu sem undirrituð verður á morgun úthlutar Garðabær lóð undir starfsemina, velferðarráðuneytið tryggir Barnaverndarstofu fjármagn til framkvæmda vegna byggingar heimilisins og Barnaverndarstofa annast reksturinn. Framkvæmdir eiga að hefjast á næsta ári.
Fram kemur í fundargerð bæjarráðs Garðabæjar að nú þegar sé hafin vinna við skipulag svæðisins.