Innlent

Mánaðarlaun bæjarstjórans hækkuðu um 612 þúsund

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Kjörnir fulltrúar í Kópavogsbæ fengu hraustlega launahækkun á síðasta ári þrátt fyrir að hafa valið aðra leið en að þiggja enn hærri hækkun kjararáðs. Bæjarstórinn er með tæpar 2,5 milljónir á mánuði eftir hækkun.
Kjörnir fulltrúar í Kópavogsbæ fengu hraustlega launahækkun á síðasta ári þrátt fyrir að hafa valið aðra leið en að þiggja enn hærri hækkun kjararáðs. Bæjarstórinn er með tæpar 2,5 milljónir á mánuði eftir hækkun. Vísir/eyþór
Laun Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjastjóra Kópavogs, hækkuðu um 32,7 prósent milli áranna 2016 og 2017 eða sem nemur ríflega 612 þúsund krónum á mánuði. Ármann fékk alls tæpar 2,5 milljónir á mánuði í fyrra fyrir bæjarstjórastarfið, setu í bæjarstjórn, nefndum og bílastyrk. Laun fulltrúa í bæjarstjórn og bæjarráði Kópavogsbæjar hækkuðu sömuleiðis um 30 prósent, og námu alls tæpum 74 milljónum króna í fyrra samanborið við 56,7 milljónir árið 2016.

Fréttablaðið óskaði eftir sundurliðun á launakostnaði stjórnenda Kópavogsbæjar en Geir Þorsteinsson, oddviti Miðflokksins í bænum, gagnrýndi hækkanir og ógagnsæi í framsetningu launaliðar ársreiknings bæjarins í grein í Morgunblaðinu á dögunum.

Þegar kjararáð hækkaði laun þingmanna hraustlega í afar umdeildri ákvörðun 1. nóvember 2016 hafði það áhrif á sveitarstjórnarstigið, þar sem víðast hvar fengu bæjarfulltrúar greitt hlutfall af þingfararkaupi fyrir setu í bæjarstjórnum.

Í Kópavogi, líkt og víðar, var tekin ákvörðun um að frysta laun bæjarfulltrúa meðan endurskoðað væri hvernig laun þeirra skyldu reiknuð. Niðurstaða í þeirri vinnu fékkst í febrúar 2017 og var ákveðið að laun bæjarfulltrúa tækju mið af þróun launavísitölu, grundvallað á uppreiknaðri upphæð frá 2006. Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ eru laun bæjarstjórans nú einnig tengd þróun launavísitölu.



Bæjarstjórnendur í Kópavogi fengu því ekki jafnmikla hækkun og ef við ákvörðun kjararáðs um 44 prósent hefði verið unað, en talsverða þó og afturvirka frá 1. mars 2017 aftur til nóvember 2016.

Það gerði það að verkum að afturvirkar greiðslur fyrir þessa tvo mánuði árið 2016 voru bókfærðar 2017 í ársreikningi og gáfu heildarupplýsingar um greiðslur til kjörinna fulltrúa því ekki rétta mynd.

Í útreikningum á þeim upplýsingum sem Fréttablaðið óskaði eftir um launagreiðslur bæjarstjórnenda hefur verið leiðrétt fyrir þessari skekkju.

Í svari Kópavogsbæjar kemur fram að árslaun bæjarstjóra árið 2016, að launatengdum gjöldum undanskildum og að viðbættum afturvirku greiðslunum, hafi numið 22,4 milljónum, eða sem nemur 1.867 þúsund krónum á mánuði.

Árið 2017 námu árslaun bæjarstjóra, að launatengdum gjöldum undanskildum og frádregnum afturvirku greiðslunum, 29,7 milljónum króna, eða sem nemur 2.479 þúsund krónum á mánuði. Inni í þessum upphæðum eru sem fyrr segir laun Ármanns sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúi auk launa fyrir nefndarsetu og bílastyrks frá bænum.

Laun bæjarfulltrúa og bæjarráðsfulltrúa árið 2016, að launatengdum gjöldum undanskildum, námu 56,6 milljónum króna árið 2016 en voru 73,9 milljónir 2017. Er það um 30 prósenta hækkun. 


Tengdar fréttir

Laun stjórnar Hörpu voru hækkuð

Eigendur Hörpu samþykktu að hækka laun stjórnarmanna um 7.500 krónur á mánuði á aðalfundi fyrir tveimur vikum. Þetta var fyrsta launahækkun stjórnarmanna í fimm ár.

Með rúmlega tvær milljónir á mánuði

Stefnir borgar hæstu launin á meðal stærstu sjóðastýringarfyrirtækja landsins og voru laun starfsmanna að meðaltali um 2.083 þúsund á mánuði í fyrra. Launin hækkuðu hins vegar mest á milli ára hjá GAMMA, eða að meðaltali um nærri 330 krónur á mánuði.

Laun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hækkuðu um 22 milljónir króna

Sú ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í janúar 2017 að láta laun bæjarfulltrúa fylgja umdeildri hækkun kjararáðs olli því að kostnaður vegna launa og launatengdra gjalda bæjarstjórnarinnar hækkaði um rúmar 22 milljónir milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×