
„Við fengum Aksel Viber, margfaldan Norðurlandsmeistara til að koma hingað og kenna strákunum meira um heitjárningar eða skeifnasmíði alveg frá grunni, þ.e. frá því að taka teininn og breyta honum í fullkomna skeifu til að nota við járningar. Þetta er gömul iðngrein sem hefur verið svolítið að tapast hér en við erum að bæta úr því“, segir Marteinn Magnússon, umsjónarmaður námskeiðsins
Flestir ef ekki allir járningamennirnir á námskeiðinu eru atvinnumenn í faginu. Einn þeirra, Kristján Elvar Gíslason, járningameistari kennir járningar í Hólaskóla.
„Já, þetta er mjög áhugavert námskeið enda erum við með topp kennara sem er algjör snillingur“, segir Kristján. Hann segist vera mjög hrifin af heitjárningum.
„Mér líkar heitjárningar rosalega vel, þetta er miklu þægilegra og einfaldara að vinna þetta, það er mun skemmtilegra að eiga við skeifuna til að fá hana passa á hófnum“.
Í heitjárningum er skeifan hituðu upp í um 1200 gráður og svo er hún mótuð á steðjanum allt eftir óskum þess sem er að járna með tilliti til stærðar hófsins á hestinum. Aksel Vibe hrósar íslenska hestinum og íslensku járningamönnum. „Já, þeir eru mjög góðir og standa sig mjög vel, þeir eru góðir fagmenn“.

