Þetta er fyrsta flugvélin af sextán sem munu koma og ber heitið Jökulsárlón. Hún tekur hundrað og sextíu farþega í sæti og mun fljúga til áfangastaða í evrópu og ameríku.

„Það kostar slatta en við höfum ekki gefið upp verðið á vélunum en það er ljóst hvað markaðsvirðið er á þeim en þetta er auðvitað stór verkefni,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair.
Vélarnar sem Icelandair hefur keypt eru af gerðinni Boeing 737 Max 8 og 9 og bætast við 757 og 767 flota félagsins á næstu þremur árum. Samkvæmt upplýsingum einkennir mikil rekstarhagkvæmni þessa flugvélagerð og á eldsneytisnotkun að vera umtalsvert minni og viðhaldskosnaður lægri.
„Þetta er í raun fyrsta skrefið í breytingu á flugflota félagins,“ sagði Björgólfur.

„Það var mjög mikilvægt fyrir Boeing að ná samningi við Icelandair. Það voru svo margir hjá okkur sem hafa unnið að þessu og verið hluti af verkefninu og hefðu viljað vera hérna í dag. Þetta er stór dagur fyrir Boeing í dag,“ sagði Mark Norris, sölustjóri hjá Boeing verksmiðjunni.
Fjölmenni tók á móti vélinni er hún kom inn til lendingar á Reykjavíkurflugvelli í dag en áætlað er að um tvöþúsund manns hafi skoðað vélina.
Á þetta eftir að hafa mikil áhrif á Icelandair?
„Alveg klárlega, þetta er bara skref inn í framtíðina,“ segir Björgólfur