Innlent

Þrjátíu tonna hveititankur Jóa Fel valt á Selfossi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tankurinn er þrjátíu tonn. Ekkert hveiti fór á jörðina við veltuna en töluvert af glussa.
Tankurinn er þrjátíu tonn. Ekkert hveiti fór á jörðina við veltuna en töluvert af glussa. Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarson
Þrjátíu tonna hveititankur valt þegar verið var að tæma hann fyrir utan bakaríið Hjá Guðna bakara, áður Guðnabakarí, á Selfossi í dag. Engin slys urðu á fólki en töluvert hreinsunarstarf tók á móti viðbragðsaðilum á vettvangi. Bakaríið er í eigu bakarans Jóhannesar Felixsonar.

Að sögn Péturs Péturssonar hjá Brunavörnum Árnessýslu gaf sig tjakkur undir tankinum, sem féll við það á jörðina. Verið var að flytja hveiti úr tankinum yfir í bakaríið.

„Það gaf sig tjakkur þegar verið var að koma hveitinu í bakaríið. Hann er semsagt reistur tjakkurinn og brotnar þannig að tankurinn fellur til hliðar af vörubílnum og lendir á jörðinni. Tankurinn er ónýtur en hveitið fór ekki úr honum.“

Um sextíu lítrar af glussa helltust hins vegar niður við veltuna og hreinsunarstarf stóð enn yfir á þriðja tímanum í dag, að sögn Péturs. Útkall vegna veltunnar barst Brunavörnum Árnessýslu rétt eftir hádegi og voru viðbragðsaðilar mættir á staðinn á nokkrum mínútum. Pétur segir mikla mildi að engin slys hafi orðið á fólki.

Tankurinn er ónýtur eftir veltuna.Vísir/magnús hlynur hreiðarsson
Töluverðu magni af hveiti hafði þegar verið komið yfir í geymslur bakarísins áður en tankurinn valt. Pétur telur hins vegar að hveitið sem varð eftir í tankinum sé ónýtt.

„Það var náttúrulega búið að koma þónokkru hveiti úr tankinum áður en hann valt. En tankurinn er það mikið skemmdur að það verður ekkert hægt að tæma úr honum frekar,“ segir Pétur.

Ekki náðist í Jóhannes Felixson, betur þekktan sem Jóa Fel, við vinnslu þessarar fréttar. Jóhannes festi kaup á Guðnabakarí á Selfossi og Kökuvali á Hellu í fyrra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×