Ásakanir á hendur Leslie Moonves, framkvæmdastjóra CBS, voru ræddar á stjórnarfundi sjónvarpsstöðvarinnar í gærkvöldi. Á fundinum var ákveðið að Moonves héldi stöðu sinni en að óháðir aðilar yrðu fengnir til að rannsaka ásakanir á hendur framkvæmdastjóranum. Reuters greinir frá.
Sex stigu fram
Sex konur sem starfa hjá fyrirtækinu stigu fram í The New Yorker og greindu frá því að Moonves hafi bæði kysst þær og snert án þeirra samþykkis. Meint kynferðisleg áreitni á að hafa átt sér stað á árunum 1985-2006.
Honum er gefið að sök að hafa áreitt þær á vinnutíma og brugðist ókvæða við þegar þær höfnuðu kynferðislegum umleitunum hans.
Skaðleg vinnumenning
Þrjátíu manns sem ýmist starfa eða störfuðu hjá CBS segja að forstjórinn hafi stuðlað að skaðlegri vinnumenningu. Starfsmenn sem hafi orðið uppvísir að kynferðislegri áreitni hefðu hlotið framgang í starfi og þá hefðu þolendur fengið greiðslur í skiptum fyrir þagmælsku.
Ákvörðun stjórnarinnar eins og blaut tuska í andlitið
Stjórn fyrirtækisins sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fram kom að Moonves verði áfram æðsti stjórnandi fyrirtækisins þrátt fyrir ásakanirnar. Ekki voru allir sáttir með ákvörðun stjórnarinnar en Melissa Silverstein, sem heldur úti síðunni Konur og Hollywood, segir að stjórnin hafi ekki brugðist við í samræmi við alvarleika málsins og að það sé eins og blaut tuska í andlitið á þeim konum sem greindu frá framferði Moonves að hann verði áfram forstjóri líkt og ekkert hefði í skorist.
Blaðamaðurinn sem afhjúpaði Weinstein skrifar um Moonves
Ronan Farrow, blaðamaður New Yorker, varpaði ljósi á frásagnir kvennanna en hann er jafnframt sá blaðamaður sem greindi fyrstur frá meintum kynferðisbrotum kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinstein.
Í yfirlýsingu sem Moonves sendi New Yorker segist hann alltaf hafa virt rétt kvenna til að hafna sér. Hann viðurkenndi að hann kynni að hafa valdið einhverjum konum hugarangri í gegnum tíðina með því að stíga í vænginn við þær en bætir við að hann sjái eftir því.
Moonves einn var valdamestu karlmönnum í Hollywood og hefur haldið um stjórnartaumana hjá CBS í áratug. Hann er 68 ára og er giftur dagskrárgerðakonunni Julie Chen.