Erlent

Conte tekur undir með Trump í NATO-deilu

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Það fór vel með Donald Trump og Giuseppe Conte.
Það fór vel með Donald Trump og Giuseppe Conte. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, fundu ýmsa sameiginlega fleti þegar þeir funduðu í Hvíta húsinu í gær, meðal annars í innflytjendamálum og fjármögnun Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO).

Trump hrósaði Conte fyrir harða stefnu í innflytjendamálum sem spiluðu stórt hlutverk í ítölsku þingkosningunum. Ríkisstjórn Conte, sem komst til valda í byrjun sumars, vinnur nú að því að takmarka fólksflutninga til landsins, sér í lagi fjölda hælisleitenda sem koma á bátum frá Afríku.

„Ég er sammála mörgu af því sem þið eruð að gera hvað varðar löglega og jafnvel ólöglega innflytjendur,“ sagði Trump við Conte á forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu. „Hann hefur tekið harða afstöðu, afstöðu sem fá stjórnvöld hafa tekið og í mínum huga er hann að gera rétt.“

Conte greindi blaðamönnum frá því að hann væri á sama máli og Trump þegar kemur að fjármögnun NATO en Trump hefur kallað eftir því að aðildarþjóðir NATO leggi meira af mörkum til bandalagsins.

Sagði Conte að krafa Trumps væri „sanngjörn“ og að hann myndi sjálfur tala fyrir henni í Evrópu. „Við verðum að semja við Bandaríkin til þess að finna hagsmunajafnvægi á milli ítalskra, bandarískra og evrópskra borgara,“ bætti Conte við.

Þá benti Trump á viðskiptahallann á milli landanna tveggja sem nemur 31 milljarði dala og sagðist hann gera ráð fyrir að hallinn yrði „lagfærður fljótlega“.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×