Ölvun setti svip sinn á nóttina hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hið minnsta sjö ölvaðir einstaklingar komust í kast við lögin vegna framgöngu sinnar, þar af voru þrír handteknir.
Í dagbók lögreglunnar segir frá manni, sem lýst er sem ofurölvi, sem handtekinn var við Kringluna á áttunda tímanum í gærkvöldi. Þar segir jafnframt að ítrekað hafi verið búið að vísa manninum frá verslunarmiðstöðinni en hann hafi ekki látið segjast. Því hafi verið kallað til lögreglu sem flutti manninn í fangageymslu.
Um klukkustund síðar var ölvaður einstaklingur á reiðhjóli handtekinn við Grettisgötu. Hann er talinn hafa valdið tjóni á nokkrum bifreiðum í miðbænum, hversu miklu eða á hversu mörgum ökutækjum fylgir ekki sögunni. Hjólreiðamaðurinn var sömuleiðis fluttur á Hverfisgötu þar sem hann hefur mátt verja nóttinni í fangaklefa.
Það var svo á Laugavegi sem karlmaður í annarlegu ástandi var handtekinn skömmu fyrir klukkan 22 í gærkvöld. Hann er sagður hafa verið að áreita fólk en ekki er greint frá því í dagbókarfærslunni hvort einhverjar stympingar hafi orðið vegna málsins. Hann, rétt eins og fyrrnefndu stútarnir tveir, var handtekinn og dvaldi í nótt á Hverfisgötu.
Ölvaður hjólreiðamaður skemmdi bíla
Stefán Ó. Jónsson skrifar

Mest lesið

Kjarasamningur kennara í höfn
Innlent





Diljá Mist boðar til fundar
Innlent


Engin röð á Læknavaktinni
Innlent

