Innlent

Æskilegt að reykskynjarar væru samtengdir

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Íbúar í fjölbýlishúsinu Grafarvogi brugðust rétt við þegar þeir biðu í íbúðum sínum eftir slökkviliði. Brunaverkfræðingur telur æskilegt að reykskynjarar í fjölbýlum séu samtengdir.

Brunaverkfræðingur segir öryggisstaðla, sem hús sem hafa verið byggð á síðustu 20 til 30 árum þurfa að uppfylla, tryggja níutíu mínútna brunaskil milli íbúða.

„Í raun og veru þýðir þetta það að þú ert öruggur í einn og hálfan tíma á íbúðinni fyrir ofan. Þér líður auðvitað ekkert vel með það og allt í líkamanum segir þér að flýja frá þessari hættu," segir Anna Málfríður Jónsdóttir, brunaverkfræðingur hjá Lotu.

Þeir sem búa í íbúðinni þar sem eldurinn kemur upp eiga að sjálfsögðu að forða sér en aðrir eru betur settir í eigin íbúð eða á svölum.

„Um leið og þú ferð fram á gang úr þinni öryggu íbúð ert þú kominn út í reykinn og þá ert þú byrjaður að anda að þér hættulegum reyk og ert að því jafnvel bara á leiðinni niður," segir Anna.

Íbúar að Bláhömrum heyrðu ekki í reykskynjurum frammi á gangi heldur vöknuðu einungis við bank frá nágranna. Anna telur að skynjarar í fjölbýlum ættu að vera samtengdir.

„Reglur kveða ekki á um að þeir séu það en það er miklu æskilegra. En samkvæmt byggingarreglugerð er bara mælt með reykskynjara á hverri hæð," segir Anna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×