Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék fyrsta hringinn á Thornberry Classic mótinu í Wisconsin í dag á þremur höggum undir pari. Ólafía var ánægð með púttin sín í dag.
„Mér leið mjög vel allan hringinn. Ég var mjög ákveðin og með gott sjálfstraust en samt yfirveguð, svo þetta var bara geggjað mix,“ sagði Ólafía Þórunn eftir að hún lauk keppni í dag.
„Ég var að setja niður góð pútt. Ég elska þennan völl, mér leið mjög vel hérna í fyrra og það eru góðar holur sem eru krefjandi en gefa færi.“
Ólafía endaði keppni á þessu móti jöfn í 36. sæti síðasta sumar og kláraði samtals á tíu höggum undir pari.
Enn eiga nokkrir kylfingar eftir að ljúka leik á mótinu en Ólafía er jöfn í 33. sæti. Hún á því góða möguleika á því að komast í gegnum niðurskurðinn.

