Fólkið liggur þungt haldið á sjúkrahúsi eftir að hafa komist í snertingu við Novichok, sovéska taugaeitrið sem notað var til að eitra fyrir Sergei Skrípal og dóttur hans Júlíu í bænum Salisbury í mars. Það virðist hafa gerst nærri staðnum þar sem eitrað var fyrir Skrípal-feðgininum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Rússar hafa staðfastlega neitað ásökunum um aðild að árásinni og hafa á móti ýjað að því að breska öryggissveitir hafi staðið að henni til þess að æsa upp andúð á Rússlandi.
„Rússneska ríkið gæti rétt úr þessu „ranglæti“. Það gæti sagt okkur hvað gerðist, hvað það gerði og fyllt upp í verulegar gloppur sem við höfum reynt að gera,“ segir Ben Wallace, öryggismálaráðherra Bretlands sem kvaðst bíða eftir símtali frá stjórnvöldum í Kreml.
Brotnar ekki hratt niður
Eftir upphaflegu árásina á Skrípal-feðginin sögðu bresk yfirvöld að lítil hætta væri fyrir almenning í Salisbury. Þeim tilmælum var þó beint til íbúa að þrífa föt sín og nota blautþurrkur til að hreinsa persónulega muni.Tilfellið nú hefur vakið ótta um að eitrið sé enn til staðar í borginni. Andrea Sella, prófessor í ólífrænni efnafræði við University College í London, segir að Novichok hafi verið hannað til þess að endast og að það brotni ekki hratt niður.
Hafi eitrið verið í íláti eða borist á yfirborð hlutar gæti það verið hættulegt í lengri tíma. Því sé mikilvægt að rekja ferðir fólksins sem veiktist til að finna uppruna eitursins.