Danski tónlistarmaðurinn Kim Larsen andaðist í gær 72 ára að aldri. Kim hafði glímt við krabbamein í blöðruhálskirtli og sjúkdómurinn hafði að lokum betur. Einn helsti aðdáandi kappans á Íslandi segir að hálfgerð þjóðarsorg sé nú í Danmörku.
„Ég var sjö ára þegar ég heyrði fyrst af Kim Larsen. Þá var ég búsettur í Danmörku og hann átti að koma fram í spjallþætti. Það voru allir að tala um þáttinn og gera ráðstafanir hvar þeir ætluðu að horfa á hann. Það var nánast eins og það væri stórviðburður á borð við lok seinna stríðs eða tungllendingin að eiga sér stað,“ segir Kjartan Guðmundsson, fjölmiðlamaður og poppfræðingur.
Vinur Kjartans brá á það ráð að taka upp frammistöðu Larsens þetta kvöld í þættinum og varð hinn versti þegar einhver opnaði sælgætispoka meðan tónlistarmaðurinn flutti lög sín. Það kom nefnilega niður á hljómgæðum kasettunnar.
„Eftir því sem maður eltist gerði maður sér betur grein fyrir því að Kim tókst að tappa inn í dönsku þjóðarsálina með hætti sem engum hefur tekist. Þó hann hafi orðið stjarna náði hann alltaf að halda sterkri tengingu við litla manninn og náði að vera gæinn á götunni. Það er erfitt að finna einhvern sem var illa við hann,“ segir Kjartan.
Sem dæmi um slíkt nefnir Kjartan að hann hafi alla tíð verið á móti konungsveldinu og því prjáli sem því fylgir. Afþakkaði hann meðal annars riddarakross þeirra Dana af þeirri ástæðu. Þá tapaði hann sér þegar Danir stefndu að því að banna reykingar á opinberum stöðum og varði miklum tíma og orku í að berjast gegn því með kjafti og klóm. Sat hann meðal annars fundi með ráðherrum og stjórnmálamönnum vegna þessa. Það má fylgja sögunni að reykingabannið danska er talsvert smærra í sniðum en víða annars staðar.
Aðspurður um eftirminnilegustu minningu sína sem tengist Kim segir Kjartan að það að sjá hann á sviði sé ofarlega en það gerði hann alls fimm sinnum, þrisvar í Danmörku og tvisvar á Íslandi. Ein minning standi þó upp úr.
„Um aldamótin var ég búsettur í Kaupmannahöfn og ætlaði að fara með vini mínum, sem var í heimsókn, út á lífið. Þegar við komum á staðinn sem við ætluðum á var búið að skella í lás. Ég bankaði upp á til að kanna hvort dyravörðurinn sæi aumur á okkur,“ segir Kjartan.
Dyravörðurinn gerði gott betur en það en hann tók á móti þeim líkt og kóngafólk væri á ferðinni. Þegar hann leit til baka sá hann að Kim og kona hans stóðu fyrir aftan þá en þau voru mætt til að sjá son sinn spila á staðnum.
„Dyravörðurinn hélt að við værum í slagtogi með honum,“ segir Kjartan og hlær. „Við spjölluðum örstutta stund og svo kvöddumst við með því að ég gaf honum eld.“
Tónlistarmaðurinn tilkynnti í desember að hann væri veikur en fæstir vissu af því að svo stutt væri í endalokin. Hann spilaði á tónleikum í sumar en þurfti að fresta nokkrum af heilsufarsástæðum. Þá vann hann að nýrri plötu skömmu fyrir andlátið og áttu því flestir von á því að hann væri að ná heilsu.
„Ég held að fólk hafi ekki verið búið undir þetta enda eru viðbrögðin úti eftir því. Í minningarorðum Berlingske Tidende var Kim Larsen lýst sem Danmörku. Það er nokkuð nálægt sannleikanum,“ segir Kjartan.

