Innsetningin hefur vakið jákvæð viðbrögð hjá hjá ungum sem öldnum. Það sem vekur fyrst eftirtekt þegar komið er inn í galleríið er að gestir þurfa að fara úr skónum áður en gengið er upp á dúkalagðan pall.
Þar gefur að líta skemmtilega skúlptúra sem eru allt í senn dulúðugir, látlausir, nákvæmir og fullir af leikgleði.

Drullusokkar eru komnir í nýrri og fínni búning og gefa ímyndunarafli áhorfandans lausan tauminn. Annars staðar gefur að líta svokallaða rottupolla. „Þetta eru pollar sem eru göng milli vídda sem rotturnar nota í víddarhopp,“ segir Ragnheiður.
Umferðarkeila hefur fengið annað hlutverk og er nú orðin persóna með sítt að aftan.
Ragnheiður segir verkin á sýningunni eiga í samtali við hvert annað en hún vann innsetninguna sérstaklega inn í sýningarrýmið.

Ragnheiður Káradóttir er fædd 1984 og býr og starfar í Brooklyn, New York. Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2010 og lauk meistaranámi í myndlist vorið 2016 frá School of Visual Arts í New York.
Ragnheiður er framkvæmdastjóri vinnustofu Hrafnhildar Arnardóttur í New York en Hrafnhildur tekur þátt í Feneyjartvíæringnum fyrir hönd Íslands á næsta ári. Þá er Ragnheiður með eigin vinnustofu og hefur tekið þátt í fjölda sýninga hér á landi og erlendis. Loks er hún annar helmingur listatvíeykisins Lounge Corp sem miðar að því að sýna myndlist í óhefðbundnum rýmum.