Menning

Efnis­skráin fjöl­breytt og í takt við anda og sögu staðarins

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Elmar, Björg , Elísabet, Hilmar Örn og Guðni.
Elmar, Björg , Elísabet, Hilmar Örn og Guðni. Vísir/Sigtryggur Ari
Hin árlega tónlistarhátíð Englar og menn hefst í Strandarkirkju í Selvogi á sunnudaginn klukkan 14. Tónleikarnir nefnast Í drottins ást og friði og þar koma fram Björg Þórhallsdóttir sópran, Elmar Gilbertsson tenór, Elísabet Waage hörpuleikari, Guðni Franzson klarínettuleikari og Hilmar Örn Agnarsson organisti. Þau flytja sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns, Emil Thoroddsen, Beethoven, Donizetti og fleiri. Björg Þórhallsdóttir er umsjónarmaður tónleikanna að venju.

„Hátíðin stendur yfir frá 1. júlí til 12. ágúst og þar koma fram margir fremstu söngvara og hljóðfæraleikara landsins,“ segir hún. Efnisskráin er fjölbreytt og í takt við anda og sögu staðarins.

Björg lýsir því sem fram undan er: „Annan sunnudag kemur Bjarni Frímann Bjarnason píanóleikari fram ásamt Jónu G. Kolbrúnardóttur sópran, Kristínu Önnu Guðmundsdóttur sópran og Pétri Björnssyni fiðluleikara. Sunnudaginn 15. júlí verða Sólrún Bragadóttir og Ágúst Ólafsson barítón hjá okkur og með þeim leikur Jón Sigurðsson á orgel og píanó. Söngkonurnar Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópran og Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran verða hjá okkur sunnudaginn 22. júlí og með þeim leikur Ástvaldur Traustason á orgel og harmóníku. Þann 29. júlí ætla feðginin Valgeir Guðjónsson og Vigdís Vala Valgeirsdóttir að gleðja áheyrendur og 5. ágúst verða söngvararnir Hildigunnur Einarsdóttir alt og Jón Svavar Jósefsson barítón með dagskrá tileinkaða Halldóri Laxness.“

Hátíðinni lýkur með Maríumessu og tónleikum 12. ágúst en þar syngja Björg og Diddú, Elísabet Waage og Hilmar Örn Agnarsson spila og séra Baldur Kristjánsson annast guðþjónustuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.