Erlent

Lést eftir neyslu granateplis

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Granatepli, eða pomegranate, eru talin herramannsmatur.
Granatepli, eða pomegranate, eru talin herramannsmatur. Vísir/epa
Áströlsk kona lést í liðinni viku eftir að hafa smitast af lifrarbólgu A, sem sögð er hafa leynst í frosnu granatepli.

Haft er eftir talsmanni heilbrigðisyfirvalda í Ástralíu á vef breska ríkisútvarpsins að málið sé sorglegt en um leið að andlát sem þessi séu sjaldgæf.

Yfirvöld hafa varað við granateplunum sem konan neytti en 24 tilfelli lifrarbólgusmits í Ástralíu hafa verið rakin til neyslu ávaxtarins. Um sé að ræða frosin granatepli frá fyrirtækinu Creative Gourment sem pakkað var í apríl síðastliðnum.

Fyrirtækið ræktar öll sín granatepli í Egyptalandi og talið er að smitið sé bundið við þessa einu uppskeru. Þannig hafi innlend uppskera sloppið við smitið.

Engu að síður er talið að um 2000 pakkar hafi verið seldir áður en upp komst um málið. Flestir sem greinst hafa með lifrarbólgu eftir granateplaát hafa náð sér að fullu og ekki er búist við að fleiri kunni að smitast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×