Þórhildur var gestur Heimis Más Péturssonar í þjóðmálaþættinum Víglínunni í morgun. Hún sagði að smokkar væru neðra þrepi virðisaukaskatts; í 11% á meðan tíðarvörur og getnaðarvarnir kvenna væru í 24% í efra þrepi virðisaukaskatts.
Hún er ein af flutningsmönnum frumvarps um breytingu á lögum um virðisaukaskatts á tíðarvörum og getnaðarvörnum. Ýmsir þingmenn stjórnarandstöðunnar, að Viðreisn undanskilinni, standa að frumvarpinu.

„Þetta eru grunnhreinlætisvörur sem konur þurfa á að halda. Þetta er ákveðinn, það mætti kalla þetta kvennaskatt, og okkur finnst að það ætti að jafna þetta út. Þetta hefur líka hóflegan kostnað í för með sér og er að ég tel, sanngirnismál sem allir ættu að geta komið sér saman um.“
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var einnig gestur í Víglínunni og hann var á sama máli og Þórhildur. Hann sagði málið vera gott að bætti við að hann hygðist styðja það þegar þingmennirnir leggja það fram.
Í myndspilaranum hér að neðan er hægt að hlusta á Víglínuna í heild sinnni. Gestir þáttarins að sinni eru Óli Björn Kárason, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.