Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta vinnur enn hörðum höndum að því að undirbúa annan leiðtogafund forsetans með Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Mike Pompeo utanríkisráðherra sagði í gær að töluverð vinna væri þó fram undan til þess að „tryggja að aðstæðurnar séu réttar“.
Pompeo sagði í samtali við Fox News að ráðuneyti hans ynni nú í málinu. Tryggja þyrfti að leiðtogarnir væru í þannig stöðu að þeir gætu náð raunverulegum árangri.
Í viðtali við NBC News sagði ráðherrann svo að hann vonaði að fundurinn yrði haldinn sem fyrst. Hann myndi sjálfur vilja fá tækifæri til þess að ferðast aftur til norðurkóresku höfuðborgarinnar Pjongjang áður en leiðtogarnir mætast.
Alþjóðlegar þvingunaraðgerðir gegn einræðisstjórninni þurfa að halda áfram þangað til Norður-Kórea gefur kjarnorkuvopn sín upp á bátinn, að því er ráðherrann sagði.
Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, heldur til Bandaríkjanna þar sem hann fundar með Trump á sunnudag. Moon hefur sagst ætla að greina Bandaríkjamanninum frá því sem bar á góma á fundi hans með Kim, sérstaklega því sem rataði ekki í sameiginlega yfirlýsingu þeirra.
Styttist í annan leiðtogafundinn
Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
