Skoðun

Jordan Peterson

Benedikt Bragi Sigurðsson skrifar
Jordan Peterson er prófessor í sálfræði við Háskólann í Toronto, en hann er á leið til Íslands og mun halda fyrirlestra í Hörpu. Peterson er mjög umdeildur, umtalaður, hefur selt margar bækur og fær mikið áhorf á Youtube. Líklegt má telja að Peterson sé að hluta til umdeildur vegna þess að hann hefur rætt um mál sem vakið hafa upp tilfinningar og hafa í einhverjum skilningi verið í brennidepli undanfarin misseri, nefna má feminisma, málfrelsi, réttindi minnihlutahópa og öfga-stefnur í stjórnmálum.

Verkefni og vandamál lífsins er hægt að leysa með notkun á tungumáli, með samræðum, rökræðum, það er eitt mikilvægasta verkfærið sem við höfum. Það er gert í stjórnmálum, á öllum skólastigum, í uppeldi, í allri starfsemi fyrirtækja, í sálfræðitíma, í spjalli yfir kaffibollum o.s.frv. Til að ná sem bestum árangri, hver svo sem markmiðin eru, getur verið mikilvægt að vanda orðaval, skilgreina hugtök og forsendur, nýta þær niðurstöður vísindalegra rannsókna sem liggja fyrir, skilja fyrirfram þekkingu þegar það á við, sýna nákvæmni og rökstyðja mál sitt. Hinn möguleikinn væri ef til vill sá að samræður tækju mið af því sem fólki finnst, að samræður byggi á mismundandi skilningi á hugtökum og forsendum hvort sem fólk áttar sig á því eða ekki, að líta fram hjá vísindalegum niðurstöðum vegna þess að alla hluti má túlka á óteljandi vegu, að halda einhverju fram á þeim grunni að það vekur upp vellíðan eða tilfinningar sem við tengjum við siðferði, að halda fast við tiltekna skoðun vegna þess að sú skoðun hefur verið til staðar í langan tíma, að hafa ekki skilning á fyrirfram þekkingu, eða að telja eitthvað rétt einungis vegna þess að það er vinsælt. Hvor nálgunin er líklegri til árangurs, líklegri til þess að leiða mál til lykta, uppgötva hvað er satt og rétt?

Hér verður ekki tekin efnisleg afstaða til þess sem Peterson heldur fram eða það rökrætt. Hins vegar má líta til þess að þegar Peterson tekur þátt í samræðum um ýmis erfið eða umdeild mál hefur hann alla jafna vísað í rannsóknarniðurstöður, skilgreint þau hugtök sem hann notar og sýnt nákvæmni í orðavali þannig að röksemdarfærslur og niðurstöður verði skýrari. Þar af leiðandi hlýtur það að vera af hinu góða að fá hann til þess að halda fyrirlestra og taka þátt í umræðum hér á Íslandi, hvort sem við verðum sammála niðurstöðunum eða ekki. Þau sem ekki eru sammála niðurstöðum Peterson vanda sig vonandi við að færa rök fyrir máli sínu.

 




Skoðun

Sjá meira


×