Skoðun

Stóriðjuskóli Norðuráls– gott dæmi um árangursríka símenntun

Hörður Baldvinsson skrifar
Frá árinu 2012 hefur Norðurál á Grundartanga starfrækt stóriðjuskóla sem hefur það að markmiði að auka þekkingu og færni starfsfólks og jafnframt að efla starfsánægju og sjálfstraust þess. Skólinn er einn þriggja stóriðjuskóla á landinu, hinir eru reknir af Reyðaráli á Reyðarfirði í samstarfi við Austurbrú og Rio Tinto í Straumsvík í samstarfi við Mími símenntun. Í öllum þessum þremur stóriðjuskólum er kennt samkvæmt námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem kallast “Nám í stóriðju”.

Stóriðjuskóli Norðuráls er gott dæmi um vel heppnaða og árangursríka símenntun þar sem kennslan fer að stórum hluta fram innan veggja fyrirtækisins. Símenntunarmiðstöð Vesturlands heldur utan um námið í nánu samstarfi við Norðurál og þannig nýtist vel annars vegar þekking starfsfólks Símenntunarmiðstöðvarinnar og hins vegar fagþekking hjá Norðuráli.

Að láta gamlan draum rætast

Stóriðjuskólinn er tvískiptur. Annars vegar þriggja anna grunnnám og hins vegar tveggja anna framhaldsnám. Grunnnámið, sem er ætlað ófaglærðu starfsfólki, má meta til allt að 34 eininga í framhaldsskóla. Þeir sem hafa lokið grunnnáminu geta haldið áfram og einnig stendur framhaldsnámið menntuðum iðnaðarmönnum í fyrirtækinu til boða. Í hverjum námshópi eru 15-18 nemendur og hefur reyndin verið sú að meirihluti þeirra sem lýkur grunnnáminu sækist eftir að komast áfram í framhaldsnámið.

Almennt hafa nemendur verið afar áhugasamir og eflst á námstímanum. Margir þeirra hafa ekki setið á skólabekk svo árum eða áratugum skiptir, sumir fóru út á vinnumarkaðinn að loknum grunnskóla og luku því ekki framhaldsskóla.

Það sama á við um nemendur Stóriðjuskólans og marga nemendur sem sækja sér nám hjá símenntunarmiðstöðvunum; stærsta skrefið er að taka ákvörðun um að láta slag standa, að skrá sig til náms. Þessi ósýnilegi þröskuldur reynist mörgum erfiður en þegar óttinn við að setjast á skólabekk er að baki eykst sjálfstraustið og gleðin við að hafa látið gamlan draum rætast.

Fjölbreytt nám

 Þó svo að kennt sé samkvæmt sömu námsskrá í stóriðjuskólunum þremur er áherslan í náminu mismunandi og tekur mið af þörfum hvers fyrirtækis. Kennsluefni fyrir Stóriðjuskóla Norðuráls hefur verið lagað að þörfum fyrirtækisins. Dæmi um námskeið í  honum má nefna samskipti, stærðfræði, tölvunotkun, vélfræði, eðlisfræði, efnafræði, rafeindafræði, umhverfis- og öryggismál, eldföst efni og gæðastjórnun, stýritækni og vökvatækni. Auk námsins innan veggja Norðuráls fara nemendur í heimsóknir í fyrirtæki, t.d. til birgja Norðuráls til að kynna sér vörur eða búnað sem Norðurál nýtir sér í sinni starfsemi.

Kennslan er í höndum fagaðila frá Norðuráli, starfsfólks Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands og kennara frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Liður í náminu eru viðtöl náms- og starfsráðgjafa Símenntunarmiðstöðvarinnar við þátttakendur.

Fjórðungur nemenda Stóriðjuskóla Norðuráls hefur farið í frekara nám

Árangurinn af Stóriðjuskóla Norðuráls er að mínu mati ótvíræður. Á þeim sex árum sem liðin eru síðan skólinn var settur á stofn hafa um 120 nemendur lokið þar námi. Og það sem ekki síður er ánægjulegt er að fjórðungur nemenda skólans hefur farið í frekara nám – t.d. á námsbrautina Menntastoðir, í framhaldsskóla (iðn- eða bóknám) eða á háskólabrú. Það er því augljóst að Stóriðjuskólinn er ákveðinn stökkpallur til frekara náms. Sú staðreynd að svo margir af útskrifuðum nemendum í Stóriðjuskóla Norðuráls hafa farið í frekara nám segir mér að námið þar hafi án nokkurs vafa ýtt undir áhuga nemenda til þess að halda áfram. Ég tel einnig að þessar tölur gefi skýrt til kynna að markviss símenntun inni í fyrirtækjunum skilar miklum árangri.

Reynslan af Stóriðjuskóla Norðuráls undirstrikar að þegar allir þeir sem að málinu koma leggjast á eitt verður útkoman góð fyrir fyrirtækið, starfsfólk þess og þar með samfélagið allt.



Höfundur er verkefnastjóri hjá Símenntunarmiðstöð Vesturlands, sem á aðild að Kvasi – samtökum fræðslu- og símenntunarstöðva




Skoðun

Sjá meira


×