Enski boltinn

Netið á Old Trafford ástæða kuldans á milli Jose og Pogba

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Paul Pogba var mættur í stúkuna á Old Trafford á þriðjudagskvöld
Paul Pogba var mættur í stúkuna á Old Trafford á þriðjudagskvöld vísir/getty
Jamie Jackson, blaðamaður Guardian sem sérhæfir sig í málum tengdum Manchester United, hefur upplýst afhverju Jose Mourinho og Paul Pogba áttu í ansi kuldalegum samskiptum á æfingu í gær.

Í gær birti SkySports fréttastofan myndband af æfingu United þar sem Pogba sést koma labbandi og heilsa þeim sem verða á vegi hans hressilega. Hann kemur svo að Mourinho og samskipti þeirra voru heldur kuldaleg.

Myndbandið var birt í kjölfarið á að Mourinho staðfesti við blaðamenn að Pogba yrði aldrei aftur fyrirliði undir hans stjórn.

Þessi samskipti á æfingunni tengdust því máli þó ekki, ef Jackson hefur rétt fyrir sér. Hann segir kuldann á æfingunni hafa verið vegna þess að Mourinho hélt að Pogba hefði verið að hlæja að tapi United fyrir Derby í deildarbikarnum á þriðjudag.

United tapaði í vítaspyrnukeppni og er úr leik í bikarnum. Pogba var ekki í leikmannahóp United en var í stúkunni og horfði á leikinn. Hann setti myndband á Instagram af sér hlæjandi á vellinum. Myndbandið var hins vegar tekið upp á meðan leiknum stóð en ekki sett inn á Instagram fyrr en klukkutíma seinna vegna vandræða með netsambandið.

„Allir aðilar skilja nú hvað gerðist og misskilningurinn hefur verið leiðréttur,“ skrifaði Jackson á Twitter.

Hvort sem þetta reynist rétt eða ekki hjá Jackson virðist ljóst að sama hverju Mourinho heldur fram þá er greinilega ekki allt í blóma á milli þessara tveggja og það virðist aðeins tímaspursmál hvenær annar þarf að víkja.



 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×