Innlent

Segir að eftirlit með vistheimilum barna hafi verið mjög ábótavant

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Lög um sanngirnisbætur voru sett árið 2010 og byggjast á rannsókn vistheimilanefndar á árunum 2007 til 2017 á starfsemi vistheimila og stofnana þar sem börn voru vistuð á síðustu öld. Málið hófst þegar Breiðurvíkurmálið komst í hámæli árið 2007 en í kjölfar þess hófst viðamikið ferli þar sem farið var yfir vistun barna.

Í ljós kom að börn á ellefu stofnunum höfðu mátt sæta illri meðferð. Heimilin sem um ræðir eru Unglingaheimili ríkisins, Vistheimilið Silungapollur, Heyrnleysingjaskólinn, Heimavistarskólinn að Jaðri í Elliðavatnslandi, Vistheimilið Breiðavík, Upptökuheimili ríkisins, Kópavogshæli, Vistheimilið Reykjahlíð í Mosfellssveit Landakotsskóli, Vistheimilið Kumbaravogur við Stokkseyri, Skólaheimilið Bjarg á Seltjarnarnesi.

Alls sóttu 1190 manns um sanngirnisbætur og 1162 fengu greiddar bæturnar. Skýrsla um niðurstöður á greiðslu þeirra var kynnt í dómsmálaráðuneytinu í dag. Guðrún Ögmundsdóttir tengiliður við umsækjendur segir að margt hafi komið fram í ferlinu.

„Það sem stingur í augu er til dæmis Landakotsskóli en þar talaði ég við rúmlega fimmtugan mann um ofbeldi sem viðgekkst þar og svo annan sem var um þrítugt og allan tímann hafði sama ofbeldið viðgengist. Eftirlitið með þessum stofnunum var mjög ábótavant,“ segir Guðrún. 

Tvö hundruð manns fá hæstu bætur eða sjö komma fjórar milljónir króna en það á við þegar fólk dvaldi lengi á stofnun, fór á milli margra eða þar sem voru framin alvarleg brot. 

„Á Kópavogshæli, Breiðavík og í Herynleysingjaskólanum voru framin afar alvarleg brot og fólk sem dvaldi þar sem börn fær oft háar bætur,“ segir Halldór Þormaður Halldórsson umsjónarmaður sanngirnisbóta. 

Þau Guðrún og Halldór segja að samfélagið geti lært margt af málinu.

„Við þurfum alltaf að hafa í huga velferð barna,“ segir Halldór að lokum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×