Innlent

Þó umferðin sé þung hefur hún gengið vel

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Á höfuðborgarsvæðinu voru ellefu ökumenn stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna.
Á höfuðborgarsvæðinu voru ellefu ökumenn stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna. Vísir/Stefán
Þrátt fyrir mikla og þunga umferð víða um landið um helgina hefur umferð að mestu gengið vel fyrir sig. Lítið sem ekkert hefur verið um ölvunar- og fíkniefnaakstur á landsbyggðinni en á annan tug tilfella á höfuðborgarsvæðinu. Sérfræðingur í forvörnum hjá VíS segir ökumenn sem aka undir áhrifum ávallt vera í órétti.

Að frátöldu einu umferðarslysi á Suðurlandi í gær hefur umferð í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi gengið afar vel fyrir sig hingað til. Sömu sögu er að segja um umferðina á Norðurlandi Eystra en að sögn lögreglu hefur verið dálítið um of hraðan akstur en hingað til hafi ekki komið upp nein tilfelli ölvunar- og fíkniefnaaksturs um helgina. Umferðin hefur einnig gengið afar vel fyrir sig á Vestfjörðum og á Austurlandi samkvæmt upplýsingum frá lögreglu, þrátt fyrir mikla umferð. Alltaf er þó eitthvað um hraðakstur en á Austurlandi hafa um 70 ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur undanfarna þrjá daga.

Á höfuðborgarsvæðinu voru aftur á móti ellefu ökumenn stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna. Tveir ökumannanna voru án bílprófs að því er fram kemur í dagbók lögreglu frá því í morgun.

Sigrún A. Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS, segir mikilvægt að ökumenn séu vissir um að þeir séu allsgáðir áður en sest er undir stýri, hafi áfengi verið haft um hönd.

„Hjá mörgum lögreglum getur þú fengið að blása og svo er verið að selja víða mæla sem þú getur blásið í og þá er hægt að miða við það þó það sé náttúrlega kannski ekkert hægt að treysta 100 prósent á mæla sem eru keyptir úti í verslun,“ segir Sigrún.

Það borgi sig aldrei að taka sénsinn, verði slys eða óhapp sé ökumaður sem neytt hefur áfengis eða vímuefna alltaf í órétti.

„Hans sök er öll, og hann getur verið krafinn um að greiða slysið að fullu þannig að það getur talið í tugum milljóna,“ útskýrir Sigrún. „Hann missir öll sín réttindi við það að vera ölvaður og hann getur líka verið sakfelldur út frá því ef að andlát verður eða alvarleg örkuml hjá öðrum sem tengjast slysinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×