Fótbolti

Zlatan: Væri orðinn forseti ef ég hefði komið fyrir tíu árum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þetta er líklega rétt hjá Zlatan.
Þetta er líklega rétt hjá Zlatan. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic er kominn aftur í gang í MLS-deildinni í fótbolta svo um munar en hann skoraði eitt þriggja marka LA Galaxy í 3-1 sigri á Philadelphia Union í fyrradag.

Zlatan er nú búinn að skora níu mörk í síðustu sjö leikjum Galaxy sem færist smám saman upp töfluna. Hann er búinn að vera sjóðheitur fyrir framan markið eftir að skora aðeins eitt mark í sjö leikjum þar á undan.

Svíinn mætti auðvitað með stæl inn í MLS-deiildina og skoraði tvö mörk í frumraun sinni með Galaxy-liðinu, þar á meðal algjörlega sturlað mark sem lét heiminn vita að Zlatan væri mættur til Bandaríkjanna.

Zlatan er búinn að leika á alls oddi í öllum viðtölum sem að hann hefur farið í og hann náði að stela fyrirsögnunum í viðtali við nokkra blaðamenn eftir sigurinn á Union þegar að hann var spurður hvernig hann væri búinn að breyta bandarískri fótboltamenningu.

„Ég veit ekki hvort ég sé búinn að breyta henni. Ég held bara áfram að sinna minni vinnu. Bandaríkjamenn eru bara heppnir að ég kom ekki fyrir tíu árum því þá væri ég forseti landsins í dag,“ sagði Zlatan Ibrahimovic.

Allt viðtalið má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×