Innlent

Viðurkenndi ofbeldi gegn konu sinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn viðurkenndi ofbeldi gegn konu sinni.
Maðurinn viðurkenndi ofbeldi gegn konu sinni. Vísir/Eyþór
Karlmaður á Vestfjörðum hefur verið dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot í nánu sambandi. Héraðsdómur Vestfjarða hvað upp dóm sinn þann 18. júlí eða átta vikum eftir að brotið átti sér stað.

Maðurinn var ákærður fyrir brot í nánu sambandi og líkamsárás með því að hafa á „alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð eiginkonu sinnar með ofbeldi,“ eins og segir í ákærunni. Brotið átti sér stað á heimili þeirra í lok maí en maðurinn viðurkennir að hafa gripið í hár hennar og dregið fram úr rúmi sínu. Í framhaldinu sló hann konuna í andlitið og greip í handleggi hennar.

Afleiðingar líkamsárásarinnar voru þær að konan hlaut stóra marbletti við hægri olnboga og aftan á upphandlegg auk marbletts við úlnlið. Maðurinn viðurkenndi brot sín skýlaust og hlaut það skjóta meðferð fyrir dómstólum sem töldu enga ástæðu til að véfengja játningu mannsins.

Í gögnum málsins kom fram að maðurinn hefði sýnt af sér óeðlilega hegðun gagnvart konu sinni í lengri tíma. Í maí sauð svo upp úr með fyrrnefndu ofbeldi sem varð til þess að konan flúði heimili sitt.

Maðurinn á sakaferil að baki sem hafði þó ekki áhrif við ákvörðun refsingar. Var hún ákveðin skilorðsbundið fangelsi í tvo mánuði. Maðurinn var sömuleiðis dæmdur til að greiða rúmlega 200 þúsund krónur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×