Verðbólguhorfur eru talsvert lakari en síðustu ár og er gert ráð fyrir að verðbólgan verði komin í um 3,5% í lok þessa árs en verði að meðaltali um 3,3% á tímabilinu 2019-2021.
Sjá einnig:Bein útsending: Ný hagspá Landsbankans kynnt í Hörpu
Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar, sagði á morgunfundi bankans í morgun að mikil óvissa sé fólgin í spánni og þar sé stærsti óvissuþátturinn krónan en einnig komandi kjaraviðræður og ferðaþjónustan sem sé ung og óreynd atvinnugrein. Veruleg áföll þar gætu haft veruleg áhrif á efnahag landsins.
Hægir á hagvexti
„Efnahagsaðstæður hér á landi hafa að miklu leyti verið mjög hagfelldar síðustu ár. Verðbólga var nær viðvarandi undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá febrúar 2014 allt fram á mitt þetta ár og samfelldur hagvöxtur hefur mælst frá árinu 2011. Kaupmáttur launa hefur aldrei verið hærri, atvinnuleysi er lágt og skuldir heimila og fyrirtækja lágar í sögulegu samhengi. Staða ríkissjóðs er sterk og hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins hefur aldrei verið hagstæðari,“ segir í spánni.Segir að nú virðist komið að ákveðnum vatnaskilum í hagsveiflunni. Eftir langt tímabil þar sem farið hafi saman kröftugur hagvöxtur og lág og stöðug verðbólga, sé útlit fyrir að hægja muni verulega á hagvexti á sama tíma og verðbólga eykst. Efnahagshorfurnar séu engu að síður jákvæðar því gert er ráð fyrir hóflegum en viðvarandi hagvexti á spátímanum.
Meðal helstu atriða í spánni eru:
- Hagvöxtur verður 3,9% á þessu ári, 2,4% á næsta ári, og rúmlega 2% árin 2020 og 2021.
-
Verðbólga verður um 3,5% í lok þessa árs, fer mest í um 3,7% á næsta ári en verður að meðaltali um 3,3% á tímabilinu 2019-2021.
-
Heldur er líklegra að gengi krónunnar veikist á spátímanum en að það styrkist. Engar forsendur eru þó til að álykta að sú breyting verði veruleg miðað við núverandi gildi krónunnar.
-
Í spánni er gert ráð fyrir að gengi krónu gagnvart evru verði nálægt 140 í lok spátímans. Meðalgengi krónu gagnvart evru það sem af er árinu er nú um 125.
Spá hækkun stýrivaxta og fjölgun ferðamanna
Veiking á gengi krónunnar síðustu vikur muni því að öllum líkindum koma fram í aukinni verðbólgu á næstu mánuðum. Ef spá Hagfræðideildar um lítilsháttar gengisveikingu næstu ár gengur eftir muni það einnig vega þungt í verðbólguþróuninni á spátímabilinu.Hagfræðideild telur líklegt að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að hækka vexti um 0,25 prósentustig seinna á þessu ári og að meginvextir bankans verði þar með 4,5%. Búast megi við frekari hækkun vaxta á næsta ári og að þeir verði þá 5,0%.
Útlit er fyrir að vöxtur einkaneyslu á árinu 2018 í heild verði um 4,3%. Einkaneysla eykst um 3,2% á næsta ári, um 3,0% árið 2020 og 3,5% árið 2021.
Hagfræðideild spáir því að fasteignaverð hækki um 4,3% á árinu 2018, um 4% á árinu 2019, um 6% árið 2020 og um 8% árið 2021.
Gert er ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi um 6% á þessu ári en að fjölgunin verði 2% á árunum 2019-2021. Þetta er talsvert minni fjölgun en sem nemur sögulegum meðalvexti á fjölda ferðamanna hingað til lands en hann er tæplega 10%.
Spá hagfræðideildar bankans má lesa í heild á vef Landsbankans