Erlent

Neyðarútgangar voru læstir og slökkt var á brunabjöllum

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkviliðsmenn eftir brunann.
Slökkviliðsmenn eftir brunann. Vísir/AFP
Neyðarútgangar í verslunarmiðstöð í Rússlandi þar sem mannskæður eldur kom upp á sunnudaginn voru læstir. Minnst 64 dóu í brunanum í Kemerovo og þar af flestir börn og í ljós hefur komið að öryggisvörður slökkti á brunabjöllum þegar þær fóru í gang. Rannsakendur hafa handtekið fjóra aðila eftir að í ljós kom að fjölmargar öryggisreglur hefðu verið brotnar í húsnæðinu.

Samkvæmt frétt Tass fréttaveitunnar, sem er í eigu rússneska ríkisins, verður fimmti maðurinn, sá sem slökkti á brunabjöllunum, mögulega einnig handtekinn.



„Öryggisreglur voru brotnar bæði við byggingu verslunarmiðstöðvarinnar og við rekstur hennar,“ sagði talskona rannsakendanna. „Sérstaklega með tilliti til þess að neyðarútgangar voru læstir.“

Eldurinn kom upp á fjórðu hæð byggingarinnar og breiddist mjög hratt út. Auk þeirra 64 sem dóu leituðu 52 aðhlynningar og þar af eru tólf enn á sjúkrahúsi.

Eldsvoðinn kom upp í þeim hluta verslunarmiðstöðarinnar þar sem er meðal annars kvikmyndahús og keilusalur. Mörg barnanna sem talið er að hafi látist í eldsvoðanum voru stödd í kvikmyndahúsinu en talið er að þakið hafi hrunið í tveimur bíósölum.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×