Erlent

Skiluðu inn 57 þúsund skotvopnum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þessi forláta sprengjuvarpa var meðal vopnanna sem skilað var inn.
Þessi forláta sprengjuvarpa var meðal vopnanna sem skilað var inn. Áströlsk stjórnvöld
Íbúar Ástralíu skiluðu 57 þúsund skotvopnum til yfirvalda á síðasta ári. Á þriggja mánaða tímabili í fyrra gátu allir skilað inn óskráðum og ólöglegum skotvopnum án þess að eiga hættu á nokkrum eftirmálum af því.

Þetta var gert í annað sinn í landinu, en slíkur háttur var einnig hafður á árið 1996 þegar morðingi skaut fjölda manns til bana í Tasmaníu. Eftir skotárásina, sem kennd er við Port Arthur, var byssulöggjöfin í Ástralíu tekin í gegn. 

Síðan þá hafa ekki verið framin fjöldamorð með skotvopnum í landinu. Fjölmargir Bandaríkjamenn horfa til reynslu Ástrala þegar rætt er um herta skotvopnalöggjöf vestanhafs.

Hugmyndin með þriggja mánaða átakinu er að fækka ólöglegum vopnum í landinu og eru yfirvöld mjög ánægð með árangurinn, sem geri samfélagið öruggara.

Meðal vopnanna sem rötuðu á borð stjórnvalda þessa þrjá mánuði voru 2500 sjálfvirk skotvopn, 2900 skammbyssur og sprengjuvarpa, sem sjá má hér að ofan. 

Um þriðjungi vopnanna var fargað meðan öðrum var komið í sölu. Lögreglan telur að um 260 þúsund skotvopn megi enn finna í undirheimum Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×