Innlent

Tólf bjargað úr eldsvoða á Laugavegi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Slökkviliðið við æfingar. Þær hafa líklega komið að góðum notum í eldsvoðanum í nótt.
Slökkviliðið við æfingar. Þær hafa líklega komið að góðum notum í eldsvoðanum í nótt. VÍSIR/VILHELM
Eldur kom upp í kjallara fjögurra hæð hús við Laugaveg 40 um klukkan fjögur í nótt. Allt tiltækt lið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var kallað út en með aðstoð körfubíls var 12 manns bjargað úr húsinu. Einn var fluttur á bráðamóttöku vegna gruns um reykeitrun.

Eldsupptök eru ókunn og slökkvistarfi að mestu lokið að sögn varðstjóra. Þó er vitað að eldurinn kom upp í kjallara verslunar í húsinu en í því má meðal annars finna veitingastaðinn Rossopomodoro, verslunina Hrafna og Scintilla ehf.

Þegar mest lét voru þrír sjúkrabílar, fjórir dælubílar og einn körfubíll að störfum á svæðinu. Greiðlega gekk að slökkva eldinn.

Mikill reykur var í húsnæði verslunarinnar þegar slökkvilið kom á vettvang og liðaðist reykurinn upp stigagang hússins. Varð það til þess að íbúarnir í þremur íbúðum á efri hæðum lokuðust þar inni.

Fólkinu var bjargað niður af svölum hússins og hlaut það aðhlynningu hjá Rauða krossinum, sem kom upp fjöldahjálparmiðstöð í strætisvagni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×