Lífið

Skrifaði æsilega glæpasögu um dýravernd

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Bókin mín byrjar á að nashyrningur í Kolmården-dýragarðinum finnst skotinn og hornið er horfið,“ segir Markus og á þar við bókina Blóðmána sem er nýkomin út á íslensku á vegum bókaforlagsins Uglu.
"Bókin mín byrjar á að nashyrningur í Kolmården-dýragarðinum finnst skotinn og hornið er horfið,“ segir Markus og á þar við bókina Blóðmána sem er nýkomin út á íslensku á vegum bókaforlagsins Uglu. Vísir/ernir
„Sænskir reyfarar fjalla oftastum dóp, morð eða vopnasölu. Ég hafði aldrei séð neinn um verslun með dýr í útrýmingarhættu, svo ég ákvað að skrifa einn slíkan,“ segir Markus Lutteman, höfundur bókarinnar Blóðmáni sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. Þar lætur hann sænska rokkstjörnu flækjast inn í óhugnanlegan heim glæpahringa sem versla með horn nashyrninga. Með bókinni vonast Markus til að opna augu lesenda fyrir því raunverulega vandamáli að gríðarleg eftirspurn eftir hornunum heggur nærri nashyrningastofninum.

Við Ernir ljósmyndari hittum Markus á hóteli í Aðalstræti, hann er í sinni fyrstu Íslandsheimsókn og alsæll með veðrið, enda lægði vind um leið og hann var lentur í Keflavík. „Það er ótrúlega hlýtt á Íslandi. Heima eru 10 mínusgráður núna,“ segir hann.

Markus hefur skrifað í stórblöð Svíþjóðar og líka nokkrar bækur um alvöru fólk, „svona blaðamannsbækur“, eins og hann orðar það. „Síðan langaði mig að skrifa skáldsögu og velti fyrir mér hvernig ég gæti komið knýjandi umhverfismálum inn í hana. Ef ég skrifaði fræðibók mundu kannski 3.000 manns lesa hana, fólk sem þegar væri áhugasamt um málefnið. En ef ég pakkaði því inn í reyfara þá smygi það inn í vitund fólks með tjattinu. Ég hafði rekist á greinar um hvað nashyrningastofninn hefði minnkað gríðarlega, enda hefði veiðin aukist frá því að vera tíu dýr árið 2007 upp í 1.200 dýr árið 2015. Ég sá strax að þetta var tilvalið efni.“

Markus segir aðalglæpina gagnvart nashyrningunum framda í Afríku og Suður-Asíu. Stundum séu dýrin skotin hljóðlaust með deyfilyfjum og hornin söguð af þeim sofandi. Svo blæði þeim út smátt og smátt. Um hundrað hornum hafi líka verið stolið í Evrópu á síðustu árum. Meira að segja í Svíþjóð.

„Á náttúruvísindasafninu í Gautaborg var uppstoppaður nashyrningur sem hafði staðið þar í hundrað ár. En 2011, í júlí, gengu þrír menn þar inn, söguðu hornið af honum og stungu af. Síðan þá hefur það sama gerst víða á söfnum um alla álfuna.“

Ástæða ránanna er sú að verðið á nashyrningshornum hefur stigið upp úr öllu valdi síðustu ár, að sögn Markusar. Hann veit skýringuna. „Í Víetnam og víðar í Asíu hefur sú mýta skotið rótum að í hornunum leynist efni sem getur læknað krabbamein og jafnvel fleiri sjúkdóma. Það stenst hins vegar ekki. Ég hygg að átta af hverjum tíu hornum séu seld í Víetnam. Mörg eru skröpuð niður í duft. En í Kína eru þau líka í miklum metum sem skúlptúrar, einkum meðal nýríkra í Sjanghaí. Kílóið af horni getur selst á um 100 þúsund dollara og eitt horn vegur fimm til sex kíló. Það er erfitt að stoppa starfsemi sem menn græða svona ótrúlega mikið á. Enn er litið á glæpina sem veiðiþjófnað og menn sitja ekki lengi í fangelsi fyrir hann.“

Markus virðir fyrir sér nashyrning út um bílglugga í Afríku.
Svíar eiga flottan dýragarð sem heitir Kolmärden. Bókin hans Markusar byrjar á að nashyrningur í garðinum finnst skotinn og hornið er horfið. „Þegar ég skrifaði þetta hafði svona aldrei hent en ég var þess fullviss að það mundi gerast, fyrr eða síðar. Það er svo erfitt og hættulegt að fara inn í frumskóginn en í görðunum eru dýr ekki svo vel vöktuð að þau hlutu að verða veiðiþjófum að bráð. Bókin kom út í Svíþjóð 22. september 2015 og fimm mánuðum síðar var nashyrningur skotinn í dýragarði í París.“

Markus vonar að hann hafi ekki gefið veiðiþjófnum hugmyndina. „Sem blaðamaður vil ég að tekið sé mark á mér en ekki í þessu tilfelli,“ segir hann. En veit hann hvort Blóðmáni hefur haft áhrif til góðs?

„Það er erfitt um að segja. Með bókinni vil ég koma á framfæri skilaboðum eins og: Kaupið ekki afurðir af dýrum í útrýmingarhættu og stillið ykkur ekki upp á mynd með dýrum sem búið er að deyfa eða lemja til hlýðni. Sem betur fer er vakning núna meðal upplýstra ferðamanna. Instagram og Tribute Wiser hafa tekið út allar slíkar myndir af sínum miðlum svo það er jákvætt.“

Talið er að nashyrningar hafi gengið á jörðinni í yfir 60 milljón ár en á síðustu hundrað árum hefur þeim fækkað úr hálfri milljón niður í 29.000. „Með áframhaldandi veiðum í sama takti verða engir nashyrningar til eftir tíu ár,“ segir Markus. 

Hluti andvirðis seldra bóka hans gengur til náttúruverndarsamtaka í Víetnam sem nefnast Education for Nature sem Markus segir vera að gera góða hluti. „Ég vona að ég hafi valið rétt. Stjórnvöld í Víetnam og víðar eru hins vegar gjörspillt og margt sendiráðsfólk sem fer milli Afríkulanda og Víetnams smyglar hornunum – eða duftinu – með sér því það kemst í gegn með sínar töskur án þess að tollayfirvöld hnýsist í þær.“ Hann segir innborgun á samtökin birtast á heimasíðu hans. „Mér finnst mikilvægt að ég geti sýnt lesendum mínum það svart á hvítu að mér er alvara.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.